Föstudagur 16.05.2014 - 10:20 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankamistökin

Ein mestu mistökin eftir hrun var að endurreisa Landsbankann, banka sem var ónýtur eftir Icesave ævintýrið.

Þegar vinstri stjórnin ákvað að ríkið ætti að eiga og reka banka hljóp aldeilis á snærið hjá kröfuhöfum. Á einu augnabliki urðu innlendar eignir þrotabúanna, sem voru á þeim tíma illseljanlegar, allt í einu markaðsvara. Íslendingar vildu halda í innlendar eignir búanna og ríkið var tilbúið að styðja við þetta verkefni. Hér græddu kröfuhafar á hræðslu Íslendinga við útlendinga og hugmyndafræði vinstri aflanna um ríkisafskipti.

Önnur mistök voru að kaupa innlendar eignir gamla Landsbankans fyrir gjaldeyri. Hér gættu menn ekki að lexíu hrunsins að tryggja jafnvægi á eigna- og skuldahliðinni. Það er góð regla að kaupa lán í sama gjaldmiðli og lántakandinn er með tekjur í.

Þriðju mistökin voru að setja ekki skilyrði í samninga við kröfuhafa um að verðmiðinn á eignasafninu og skuldabréfið væri háð því að samningar næðust um Icesave. Þetta uppsagnarákvæði vantaði þegar ljóst varð að ekki yrði samið um Icesave.

Fjórðu mistökin voru að fara ekki eftir ráðgjöf sænskra sérfræðinga sem höfðu reynslu af norrænu bankakrísunni í lok 20. aldarinnar.

Þessi mistök stjórnvalda áttu sinn þátt í að verð á skuldabréfum föllnu bankanna hækkaði. Þannig er hluti af hagnaði þeirra sem keyptu bréf á eftirmarkaði eftir hrun, Íslendingum sjálfum að þakka.

Krúnudjásn fyrri ríkisstjórnar er orðið að myllusteini núverandi stjórnar og gæti hæglega breyst í jarðsprengju hjá þeirri næstu, ef ekki er vel haldið á spilum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur