Nú þegar stóru bankarnir 3 hafa birt uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung er vert að bera rekstur þeirra saman.
Íslandsbanki setur rekstrarreikning upp miðað við íslenskar aðstæður eftir hrun. Lykilstærðin er hagnaður fyrir virðisrýrnun og virðisbreytingu útlána. Þar með reynir bankinn að aðgreina venjulegan rekstur frá hagnaði sem myndast vegna hrunsins. Þetta er mikilvægt þar sem stór hluti hagnaðar bankanna frá hruni er vegna umsýslu með hruneignir og þessi uppsetning sýnir hvernig bönkunum miðar á leið þeirra frá hruninu.
Á þennan mælikvarða var hagnaður fyrstu 3 mánuði 2014 hjá: Íslandsbanka 4.4 ma kr., Arion Banka 2.1 ma kr og Landsbankanum 1.1. ma kr. Þessi uppsetning sýnir vel yfirburði Íslandsbanka. Það er sá banki sem virðist kominn lengst í að endurskipuleggja starfsemi sína frá hruni. Staða Landsbankans er hins vegar áhyggjuefni. Ef litið er á arðsemi eiginfjár er hún lægst hjá Landsbankanum eða um 2% á móti 5.9% hjá Arion Banka og 10.2% hjá Íslandsbanka, miðað við ofangreinda hagnaðarskilgreiningu.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Ef skyggnst er nánar í virðisbreytingu útlána Landsbankans sést að bankinn bókfærir hagnað upp á 6.7 ma kr. undir þessum lið á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er hagnaður vegna lána sem keypt voru af kröfuhöfum á miklum afslætti. Ef bankinn hefði ekki þennan sjóð að ganga í nú um fimm og hálfu ári frá hruni hefði bankinn sýnt rekstrartap miðað við þetta nýjasta uppgjör.
Það er löngu orðið tímabært að eigendur Landsbankans fari að krefja yfirstjórn bankans svara um hvernig rétta eigi þenna rekstur við og ná viðunandi og sjálfbærri arðsemi á fjárfestingu skattgreiðenda.
Ég sé að aldrei þessu vant er hér opið fyrir ummæli.
Ég vil nýta tækifærið og þakka höfundi fyrir hans framúrskarandi skrif sem ég fylgist grannt með og les jafnan mér til upplýsingar.
Ekki ætla ég að krefja höfund svara en okkur dyggum lesendum leikur vafalaust forvitni á að vita hvernig hann metur stöðu Landsbanka í ljósi þess að stofnunin er nær alfarið í eigu ríkisins.
Telur höfundur hættu á að bankann þrjóti örendi og hann lendi enn og aftur á skattgreiðendum? Verður Landsbankinn í ljósi eignarhaldsins annar Íbúðalánasjóður? Getur Landsbankinn sem ríkisstofnun hrunið öðru sinni? Hvernig er háttað öryggi þeirra sem eiga innistæður í þessu fyrirtæki?
Ég ítreka þakkir mínar til þessa besta skríbents íslenskra bloggheima.
Kveðja
Rósa Guðrún.
Sæl Rósa,
Ég þakka þér fyrir góð ummæli og það er gott að heyra að einhver lesi þessi skrif mín. Því miður er það reynsla mín að um 80% af athugasemdum eru ómálefnalegar svo ég loka fyrir þær. Ég skal reyna að svara þér varðand malefni Landsbankans þar sem skattgreiðendur hafa sett inn um 150 ma kr.
Vandamál Landsbankans eru margþætt, hann glímir við dýra erlenda fjármögnun á efnahagsreikningi og allt of háan kostnað á rekstrarreikningi. Það sem hefur haldið bankanum fljótandi frá hruni er það,sem má kalla spilavítisbankastarfsemi eða sýsla með hruneignir. Venjuleg bankastarfsemi Landsbankans berst í bökkum og margt bendir til að hún sé rekin með tapi.
Því miður virðist fókus yfirstjórnar bankans vera á að byggja nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins í stað þess að hagræða og svo finna hentugt húsnæði á ódýrum stað á höfuðborgarsvæðinu. Hættan er að hinir bankarnir verði seldir á spottprís til vildarvina stjórnmálamanna sem fá þar með mikið forskot á Landsbankann. Í þeirri sviðsmynd er hætta á að Landsbankinn lendi í svipuðu fari og Íbúðarlánasjóður. Hinn möguleikinn er að Landsbankinn verði seldur á brunaútsöluverði á undan hinum bönkunum með tapi fyrir skattgreiðendur.
Sama hvor leiðin verður farin, líkurnar eru yfirgnæfandi að skattgreiðendur tapi. Reynsla Íslendinga af því að reka og einkavæða ríkisreknar fjármálastofnanir er einhver sú versta innan OECD og fátt bendir til að það breytist á næstu árum.
Kveðja Andri