Laugardagur 01.11.2014 - 08:18 - Lokað fyrir ummæli

Krónuverkföll

Verkfall lækna er smjörþefurinn af því sem koma skal.  Lífskjaramunur þeirra sem eru fastir í krónuhagkerfinu og hinna sem búa í rífandi uppgangi gjaldeyrishagkerfisins fer vaxandi.  Þetta misrétti mun leiða til átaka og endaloka krónunnar.

Flest stærstu fyrirtæki landsins eru löngu búin að kasta krónunni, fyrirtæki á við Icelandair, Marel, HB Granda og jafnvel Landsvirkjun.  Öll þessi fyrirtæki gera upp í erlendri mynt og fjármagna sig að mestu leyti í gjaldeyri.  Þau fjármagna ekki framtíðartækifæri með krónum úr Kauphöll Íslands sem auðvitað veltur upp þeirri spurningu hvert er þá aðalhlutverk krónukauphallar?

Og það skal engan undra að það sé uppgangur í gjaldeyrishagkerfinu þegar tekjur eru í erlendri mynt en kostnaðurinn í láglaunakrónum.  Hvert lúxushótelið rís á fætur öðru, lúxusíbúðir sem kosta allt að 700,000 kr. fermetrinn renna út, á meðan krónufólkið er í miklum húsnæðisvanda og ræður ekki við vaxtaokrið.  Er lausnin virkilega gámar fyrir þennan hóp?

Það eru auðvitað ótrúlegt hvað launafólk sýnir þessu tvöfalda kerfi mikinn skilning og umburðarlyndi. En nú hafa læknar fengið nóg, enda þurfa þeir ekki að sætta sig við óréttlæti krónunnar.  Aðrir hópar munu fylgja á eftir.  Afleiðingin er þekkt. Gengisfelling og verðbólga sem bitnar mest á krónufólkinu sem aftur leysir engan vanda, gerir hann aðeins verri.

Fyrsta skrefið út úr þessari hringavitleysu er að „hagkerfin“ sameinist og að allir kasti krónunni.  Það verður aldrei hægt að skipta kökunni jafnt nema að allir noti sömu mælieiningu.  En það verður ekki sársaukalaust fyrir hvorugan hópinn.  Gjaldeyrishópurinn þarf að deila hagnaði sínum með öðrum á meðan krónuhópurinn þarf að sætta sig við meira atvinnuleysi.  Þetta mun bitna verst á miðaldra kynslóðinni og verður líkt og þegar austur-Þýskaland sameinaðist vestur-Þýskalandi.

Því miður bendir flest til að þessi nauðsynlega sameining verði ekki gerð skipulega heldur með átökum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur