Líklega er ekkert land innan OECD þar sem lögmálið um framboð og eftispurn skiptir minna máli við ákvörðun launa en Ísland.
Laun eru upp til hópa ákvörðuð í almennum kjarasamningum. Það er lítið einstaklingsfrelsi á Íslandi til að semja um eigin laun. Þeir sem sætta sig ekki við íslenska launaskala og sitja ofarlega á hinni alþjóðlegu eftirspurnarkúrfu leita sér að störfum erlendis. Þetta er staða sem hefur ríkt um langt tímabil á Íslandi en hefur ekki raskað jafnvægi á vinnumarkaði þar sem nóg framboð hefur yfirleitt verið af fólki sem sættir sig við íslensk laun.
En þetta jafnvægi hefur nú riðlast hjá læknum. Þar ná íslensk laun ekki nema rétt inn á neðsta hluta framboðskúrfunnar, þ.e. lítið sem ekkert framboð er af læknum sem sætta sig við íslensk laun. Þar sem læknar eru lífsnauðsynlegir hverju samfélagi er lítið annað hægt að gera en að hækka launin og vona að hallinn á fremsta hluta framboðskúrfunnar sé nógu aflíðandi til að hægt verði að manna skammlaust heilbrigðiskerfi.
Það eru ekki margar stéttir á Íslandi í jafn krítískum vanda með framboð og eftirspurn og læknar. Það er því ekki rökrétt að aðrir byggi sínar launakröfur á lausn læknadeilunnar. Í mörgum háskólamenntuðum stéttum er t.d. yfirframboð af fólki. Það er erfitt að rökstyðja miklar launahækkanir þar. Almennar raunlaunahækkanir verða að byggja á fjárfestingum, nýsköpun og framlegðaraukningu en ekki „væntingum“ og “fordæmum“.