Laugardagur 24.01.2015 - 10:03 - Lokað fyrir ummæli

Bankamistök

Rauði þráðurinn í íslenskri bankasögu eru mistök.

Það voru mistök gerð þegar bankarnir voru einkavæddir, það voru herfileg mistök gerð sem leiddu til þess að þeir hrundu allir og svo voru auðvitað mistök gerð þegar þeir voru endurreistir og það verða gerð mistök þegar þeir verða loksins seldir aftur.

Afleiðing af öllum þessum mistökum er að heimilin og atvinnulífið taka á sig skellinn, það eru þau sem borga endanlega.

Nýjasta útspilið er að kröfuhöfum hafi verði “gefnar” 400 ma kr.  Maður gefur ekki hluti sem maður á ekki, svo þeir sem halda þessu fram þurfa að útskýra hvernig ríkið eignaðist 400 ma kr af einkafyrirtækjum?  Neyðarlögin geta aldrei “gefið” þessa peninga eins og ýjað er að, einfaldlega vegna þess að 72. grein stjórnarskrárinnar sendur þeim ofar.  Eignir verða ekki teknar af fólki nema fullar bætur komi fyrir.  Sú spurning sem þessi umræða veltur auðvitað upp er hversu langt er hægt að ganga með neyðarlög án þess að þau stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar?

Hefði ríkisstjórn Jóhönnu ekki samið við kröfuhafa hefði allt endað fyrir dómstólum og líklega hefði þessi “Robin Hood” túlkun neyðarlaganna fallið á stjórnarskrárprófinu?  Það var nú kannski það sem menn voru að forðast, enda hefði slíkur dómur getað sett allt fjármálakerfið í uppnám.

En þetta breytir ekki því að það voru gerð mistök við endurreisn bankakerfisins.  Það voru t.d. mistök að endurreisa bankana í sinni gömlu mynd, en það er efni í heila bók.  En mistökin sem komu þessum 400 ma kr. snjóbolta, sem nú er rifist um, af stað var sú aðgerð að tryggja allar innistæður óháð upphæð.  Þar sem innistæður eru skuldir hjá bönkum þurfti eignir á móti til að stemma efnahagsreikninga nýju bankanna.  Útlán eru eignir hjá bönkum og þau áttu kröfuhafar.  Eftirpurn eftir eignum kröfuhafa var því í réttu hlutfalli við innistæðutryggingu ríkisins.  Um leið og allar innistæður voru tryggðar á Íslandi urðu eignir kröfuhafa allt í einu eftirsóttar og verðið tók því að hækka á skuldabréf gömlu bankanna á eftirmarkaði.  Þetta sáu hrægammasjóðir en því miður ekki menn á Íslandi, eins og t.d. lífeyrissjóðir.  Þá hjálpaði það hrægömmum að íslenski seðlabankinn var ekki gjaldfær í erlendir mynt og ríkið því ófært að veita þeim samkeppni.  Allt lagðist því á eitt að hjálpa skarpskyggnum erlendum hrægömmum.  Þeir notuð sér einfaldlega tækifæri sem aðrir gáfu þeim.  Eins dauði er annars brauð, eins og sagt er.

Mistök eru tækifæri til að læra, en því miður endar þetta alltaf í endalausu þrasi á Íslandi og mistökin eru sífellt endurtekin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur