Sunnudagur 25.01.2015 - 16:16 - Lokað fyrir ummæli

Krónan er hávaxtahaftaevra

Þegar prentvélar Evrópska Seðlabankans voru ræstar nýlega og evran féll, fylgdi króna í kjölfarið eins og þægur kjölturakki.  En Íslendingar fengu aðeins gengisfellinguna, ekki lágu vextina eða frelsið.

Íslenska krónan hefur nú verið aðlöguð að gengi evrunnar með hjálp hafta og hárra vaxta. Þetta kalla menn sjálfstæða peningamálastefnu!  Já, það er ekki öll vitleysan eins.

Þetta er bara enn ein staðfesting á því að aðlögun Íslands að ESB og evru er á fullri ferð, alveg óháð ESB umsókn!  Í raun má segja að aðlögun að ESB og evru hafi náð nýjum hæðum hjá núverandi ríkisstjórn. Alþingi tekur skipanir frá Brussel í gegnum EES en það sem er nýtt er að Seðlabankinn er farinn að aðlaga sig að peningstefnu sem kemur frá Frankfurt.

Þetta sýnir auðvitað hugmyndalegt tómarúm þegar kemur að stefnumótun.  Menn hanga í frösum um fullveldi og sjálfstæði en geta ekki tengt það raunveruleikanum.  Útkoman verður annars flokks Evrópuríki þar sem haldið er dauðahaldi í pilsfald ESB og evrunnar í gegnum samninga og aðgerðir sem aðrir stjórna.  Aðeins á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur