Mánudagur 26.01.2015 - 10:52 - Lokað fyrir ummæli

Íslenskir Grikkir

Það er margt líkt með Grikklandi og Íslandi þegar kemur að peningum.  Bæði löndin hafa langa sögu af bruðli.  Í báðum löndunum var það lítil klíka sem hafði stjórnmálastéttina í vasanum og gat platað erlenda sparifjáreigendur, sérstaklega Þjóðverja, til að dæla peningum til sín, sem siðan voru notaðir í alls konar bruðl og vitleysu.

Mjög lítið af því ótrúlega fjármagni sem Ísland og Grikkland höfðu úr að moða fyrir hrun var notað innanlands til að byggja upp infrastrúktúr eða arðsöm atvinnutækifæri, hvað þá til að auka framlegð eða gera löndin samkeppnishæfari.  Nú eru peningarnir gufaðir upp en eftir standa lánin og kröfurnar sem menn vilja fá borgað til baka.

Eftirá að hyggja er þetta kannski ekki skrýtið.  Bæði Grikkir og Íslendingar kunnu ekkert með alvöru peninga að fara.  Klíkurnar voru vanar krónum og drachma sem alltaf var hægt að gengisfella, og skuldirnar gufuðu upp í verðbólgu eða voru afskrifaðar eftir pólitískum leiðum.  Nú sitja menn uppi með kröfur í evrum og leita allra leiða til að láta þær hverfa.

Það er auðvitað ekki undarlegt að ný kynslóð vilji ekkert með þetta sukk foreldra sinna hafa.  Það kýs flokka sem lofa hærri launum, skuldaniðurfellingum, nýjum opinberum störfum, osfrv. Vandamálið er bara hvernig á að fjármagna öll þessi loforð?  Hvar eiga peningarnir að koma í þetta sinn?  Ekki frá Þjóðverjum, svo mikið er víst.  Brennt barn forðast eldinn!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur