Miðvikudagur 18.03.2015 - 07:32 - Lokað fyrir ummæli

Stefnulaus ríkisbanki?

Nýlegt ársuppgjör Landsbankans hlýtur að valda eigendum hans vonbrigðum.  Hreinar vaxtatekjur dragast saman um 18% á sama tíma og launakostnaður hækkar um 10%, sem svarar til 90,000 kr hækkunar á mánuði per stöðugildi.

Svar bankaráðs er að endurskoða stefnu bankans.  Þetta er í sjálfu sér ekki undarlegt, en það sem er athyglisvert er að það hefur tekið yfirstjórn bankans rúm 4 ár að átta sig á að stefnan frá 2010 var alltaf byggð á sandi.  Uppgjörið 2014 sýnir það svart á hvítu.

Til upprifjunar er rétt að benda á að í ársskýrslu 2013 er yfirskrift formanns bankaráðs í ávarpi hans eftirfarandi:

Einn helsti styrkur Landsbankans felst í mjög skýrri stefnu.  Árið 2010 setti bankinn sér markmið um að komast í forystu á íslenskum bankamarkaði á árinu 2013.  Því markmiði teljum við okkur hafa náð og vinnum nú að því að Landsbankinn verði til fyrirmyndar og sambærilegur bestu bönkum á Norðurlöndum á árinu 2015.  Þó vissulega sé enn margt óunnið, þá miðar í rétta átt og markmiðin standa óhögguð.

Í nýlegum ársreikningi fyrir 2014, tæpu ári seinna er tóninn frá bankaráði allt annar, enda segir þar:

Án hreinna virðisbreytinga hækkaði kostnaðarhlutfall bankans í 56,0%, sem er umfram sett markmið bankans.  Þessa hækkun má rekja til lækkunar á hreinum vaxtatekjum og öðrum rekstrartekjum, hærri starfsmannakostnaði og fjárfestingu í mótun stefnu til framtíðar.  Bankinn hefur endurskoðað stefnu sína með það að markmiði að bæta afkomu grunnrekstrar bankans til framtíðar.”

Svona u-beyja er ekki traustvekjandi, sérstaklega ekki korteri áður en ríkið hyggst selja hlut í bankanum til fjárfesta sem munu líklega fara fram á afslátt ef “einn helsti styrkur Landsbankans” svo notuð séu orð bankaráðsformanns, er allt í einu horfinn?

Því miður hefur Landsbankinn tapað dýrmætum tíma sem samkeppnisaðilar hafa notað vel til að styrkja stöðu sína.  Landsbankamenn hafa sofið á verðinum, enda þarf ekki að hafa mikið fyrir hlutunum þegar hægt er að stóla á 20 ma kr. árlegan hagnað af uppfærslu lánasafna sem keypt voru á “afslætti” .  En slíkur tekjustofn er ekki sjálfbær og hin mikla spurning er hvernig á að brúa tekjutapið sem mun myndast þegar uppfærslu á lánasöfnum líkur og hagnaður af sölu Borgunar, Valitors, Prómens og annarra eigna þurrkast upp?  Hvernig á þá að fjármagna 10% hækkun á launakostnaði?

En þetta er ekki eina áskorun Landsbankans.  Fjármögnun bankans og greiðslukortaþjónusta eru stórir póstar þar sem ríkisbankinn rekur samkeppnislestina.  Þá er ekki nóg að fjárfesta í stefnumótun til framtíðar það þarf einnig að huga að framkvæmd nýrrar stefnu.  Hefur bankinn, t.d. nauðsynlega reynslu og þekkingu af hagræðingu og breytingastjórnun?

Fyrir fjárfesta sem byggja ákvarðanir sínar á viðskiptalegum forsendum er hætta á að óvissuþættirnir í rekstri og stefnu Landsbankans séu of margir til að auðvelt verði að ná saman um ásættanlegt verð. Það getur opnar leið fyrir þá sem hafa áhuga á að eignast banka á öðrum forsendum!

Það er því vonandi að bankinn noti tækifærið á aðalfundi í dag, til að létta þokunni af óvissuþáttum í rekstri og stefnu bankans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur