Fimmtudagur 19.03.2015 - 08:32 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn rassskelltur

Á aðalfundi í gær var Landsbankinn rækilega rassskelltur og stjórn bankans vakin upp af þyrnirósasvefni sínum.  Ekki stendur steinn yfir steini af hinni margrómuðu stefnu bankans frá 2010.  Stefnu sem hefur dregið hagnað af reglulegum rekstri niður í 5-6%, selt eignir í lokuðu ferli og keypt eina dýrustu lóð landsins við Hörpu undir nýjar aðalstöðvar.

Nú er það Bankasýslan og erlendir ráðgjafar sem sitja í framsætinu en stjórn og bankstjóra hefur verið vísað aftur í.  Það verður þó að virða það við stjórn bankans að hún viðurkennir veikleika í stjórnun bankans í skýrslu sinni, en án þess þó að reifa nákvæmar lausnir þar á.  Þar segir:

Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að endurskoðun á stefnu bankans með aðstoð öflugs, erlends ráðgjafarfyrirtækis. Gríðarleg greiningarvinna með samanburði við það sem best gerist erlendis er að baki. Við stefnumótunarvinnuna komu í ljós mörg tækifæri fyrir bankann til úrbóta og búið er að móta langtímaáætlanir sem byggja á nýrri stefnu.”

Það eru alltaf veikleikamerki þegar stjórnir viðurkenna að ráða þurfi ráðgjafa við hlið stjórnenda til að finna tækifæri til úrbóta.  Til hvers eru stjórnendum borguð laun?  Það er yfirleitt mun ódýrara að ráða stjórnendur með rétta þekkingu og reynslu en að styðjast við ráðgjafa.  Þá vekur þetta upp spurningar um gæði þeirrar vinnu sem stóð að baki stefnunnar frá 2010, sem stjórnin taldi einn mesta styrk bankans fyrir aðeins ári síðan!

Þegar kemur að rekstri bankans virðist bankaráð loksins hafa vaknað upp af þyrnirósasvefni, en í skýrslu stjórnar segir:

Bankasýslan sem fer með eignarhlut ríkisins í bankanum hefur lagt að bankaráðinu að bæta reglubundinn rekstur með lækkun kostnaðar og aukningu þjónustutekna. Við erum sammála þeirri kröfu og einmitt þess vegna höfum við mótað nýja stefnu fyrir bankann sem miðar að því að ná arðsemi af reglubundnum rekstri yfir 10% á næstu fjórum árum.”

Allir þeir sem hafa lesið skýrslur Bankasýslunnar síðustu 5 árin, vita að í nær öllum þeim er varað við að arðsemi af reglulegri starfsemi Landsbankans er ekki viðunandi.   Þetta vandamál er löngu þekkt og Seðlabankinn hefur einnig varað við lágri arðsemi.  Hægt hefði verið að bregðast við þessu þekkta vandamáli strax 2010.  Í staðinn þarf bankinn nú a.m.k. 4 ár til að ná settu markmiði.  Þetta er töf sem mun verða dýrkeypt.  En hvers vegna var ekki gripið í taumana strax 2010?

Því miður virðist skýrsla stjórnar Landsbankans frá 2015 velta upp fleiri spurningum en svörum.

Þetta er ekki gott veganesti fyrir eiganda sem vill hámarka söluverð á hlut sínum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur