Laugardagur 21.03.2015 - 08:56 - Lokað fyrir ummæli

Icesave leið úr höftum

Margir telja að nú séu góðar horfur til að losa fjármagnshöftin?  Hvers vegna?  Jú, vegna þess að vaxtamunur við útlönd er í hæstu hæðum.  Hann muni laða erlent fjármagn til landsins.  M.ö.o. það á að nota vaxtaokur heimilanna og minni fyrirtækja til að létta á höftunum.

Þetta kallar maður Icesave leið úr höftum, en þetta var einmitt leið gömlu bankanna til að ná í erlent fjármagn, korteri fyrir hrun.  Tær snilld, ekki satt?  Halda menn virkilega að það sé hægt að auglýsa sig út úr vandanum, eina ferðin enn?

Vandamálið við þessa leið er auðvitað að fjármagn kemur til landsins á “fölskum” forsendum, spekúlantar er á höttunum eftir háum vöxtum, ekki spennandi atvinnutækifærum sem skapa störf.  Þessi leið mun ekki verða til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífinu eða styðja við sprotafyrirtæki, þvert á móti.  Hávaxtastefna krónunnar festir landið í frumstæðri nýtingu auðlinda og ferðamennsku.

Þetta byggir á mjög einfaldri grunnskólastærðfræði, því hærri sem vaxtakostnaður fyrirtækja er, því lægri verður arðsemi á eigið fé, að öllu öðru óbreyttu.  Fjárfestar munu ólmir vilja kaupa skuldabréf útgefin á Íslandi en að sama skapi verður lítill áhugi að koma með áhættufjármagn í formi hlutafjár nema í fyriræki sem fá ívilnanir eða orkuna á spottprís.  Hin undantekningin er svo verslunin, en það hefur alltaf borgað sig að selja Íslendingum glingur og drasl á okurverði.

Samkeppnishæft vaxtastig og stöðugur gjaldmiðill myndi gjörbreyta Íslandi, enda hefur landið alla möguleika til að veita landsmönnum sömu kjör og velmegun og Noregur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur