Miðvikudagur 29.04.2015 - 14:02 - Lokað fyrir ummæli

Borgun malar gull

Borgunarmenn sýna hvernig snúa á á ríkið og fá eignir á spottprís.  Tölurnar sem hafa verið birtar um hagnað og arðgreiðslur eru hreint ótrúlegar.

Svo virðist sem Borgun hafi verið seld á hressilegu undirverði af ríkisbankanum.  Látum tölurnar tala.

Landsbankinn selur 31.2% í Borgun á 2.2 ma kr.  Þetta þýðir að bankinn metur Borgun á 7.05 ma kr. Hagnaður Borgunar á síðasta ári var víst 1.4 ma kr., þannig að V/H hlutfallið (P/E ratio) er 5.  Meðaltal fyrir V/H hlutfall fyrirtækja í Kauphöllinni er um 20 og bæði Mastercard og Visa í Bandaríkjunum eru með V/H hlutfall yfir 25.  Þá gefur 800 m kr. arðgreiðsla nýjum hluthöfum ávöxtun upp á 11.3% sem er meir en frábært, sama hvaða mælikvarða miðað er við.

Það er auðvitað stjórn Landsbankans sem ber endanlega ábyrgð á þessari sölu og flest bendir til að hún hafi verið plötuð upp úr skónum.  Hins vegar er ekki að sjá að Bankasýslan sé óánægð með söluna.  Alla vega voru allir stjórnarmenn Landsbankans endurkosnir af Bankasýslunni á nýlegum aðalfundi.

Þessi Borgunaraðferð er einmitt uppskriftin af þeim aðferðum sem verða notaðar til að ná í uppsafnaðan hagnað stóru bankanna eins og ég skrifaði um í síðustu færslu.  Því miður bendir fátt til að stjórnmálastéttin geti stoppað svona “gjafagjörninga”.

Að lokum er rétt að minna á að gagnrök Landsbankans eru eflaust þau að hagnaður Borgunar muni dala á komandi árum þar sem Landsbankinn fari með kortaviðskipti sín annað.  En jafnvel þó hagnaður Borgunar helmingist er dílinn fanta góður!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur