Mánudagur 27.04.2015 - 08:55 - Lokað fyrir ummæli

Viðvörun Seðlabankans

Í nýju riti Seðlabankans um fjármálastöðuleika er að finna þríhliða viðvörun til viðskiptabankanna og FME. Seðlabankinn hefur áhyggur að áhættan í íslensku bankarekstri gæti aukist og stöðuleiki minnkað vegna:-

– Viðvarandi lélegs grunnreksturs viðskiptabankanna
– Hárra arðgreiðslna
– Innleiðingu innramatsaðferðar við útreikning á eiginfjárkröfu

Það sem er athyglisvert er að þessi þrjú atriði eru innbyrðis tengd. Með því að innleiða innramatsaðferðina er hægt að lækka eiginfjárkröfuna og þar með hækka arðgreiðslur og auðveldara verður að láta grunnreksturinn líta betur út í glærukynningum. Það skyldi því engan undra að bankamenn séu áfjáðir í að fá heimild FME til að nota innramatsaðferðina, sem leyfir bönkunum að meta eigin áhættu sjálfir!  Líklega er hér um tugi milljarða kr. að ræða sem hægt verður að losa um í stóru bönkunum og tímasetningin er auðvita líka athyglisverð. Nú liggur mikið á að ljúka uppgjöri við kröfuhafa svo hægt sé að koma bönkunum í hendur “réttra” aðila áður en kjörtímabilið rennur út.

Með bankana í “réttum” höndum og leyfi frá FME til að innleiða innramatsaðferðina, sem er ekkert nema umdeildur staðall, þá er allt í einu hægt að dæla tugum milljarða í arðgreiðslur til hinna nýju eigenda. Þetta hafa fjármálapekúlantar komið auga á, og þeir dangla auðvitað þeirri gulrót að stjórnmálastéttinni að hún fái sinn hlut í arðgreiðsluveislunni sem hún geti nota til atkvæðaveiða.  Sem sagt allir eru vinningshafar, eða hvað?

Ætli FME sé sammála Seðlabankanum um þessar áhyggjur bankans varðandi innleiðingu á innramatsaðferðinni við íslenskar aðstæður?  Varla færi Seðlabankinn að setja þessa viðvörun inn í rit um fjármálastöðuleika nema menn þar á bæ hafi eitthvað fyrir sér?  Svo gæti líka verið að þetta væri síðasti sjans fyrir Seðlabankann að tala umbúðarlaust áður en hann fær 3 stjóra yfir sig?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur