Laugardagur 25.04.2015 - 10:20 - Lokað fyrir ummæli

Veikasti hlekkur Landsvirkjunar

Landsvirkjun er flott fyrirtæki sem er 50 ára í ár eins og forstjórinn rekur í grein í Morgunblaðinu í dag.  Þar er farið yfir víðan völl eins og við er að búast á stórafmæli.  Það sem er einna athyglisverðast við greinina er stuttur kafli sem nefnist “Viðskiptaforsendur ráða”. Þar kemur sú skoðun forstjórns skýrt fram, að hann lítur á sæstrengsverkefnið eins og hvert annað viðskiptalegt tækifæri sem ber að höndla sem slíkt. Og þar rekst hann á veikasta hlekk fyrirtækisins – stjórnina.

Stjórn Landsvirkjunar er ekki valin með viðskiptalegar forsendur í huga, hún er pólitísk þar sem fjórflokkurinn hefur sína varðhunda. Það situr t.d. enginn verkfræðingur eða tæknimenntaður maður í stjórninni og er það einsdæmi í Norður-Evrópu að stjórn jafn mikilvægs orkufyrirtækis skuldi ekki hafa yfirgripsmikla tækniþekkingu innan sinna raða. Það sama má segja um fjámála- og fjármögnunar þekkingu og reynslu.  Og hvað með alla þá frábæru orkusérfræðinga sem Ísland á og miðla af þekkingu sinni um allan heim, enginn þeirra situr í stjórn Landsvirkjunar eða Orkuveitunnar? Hvers vegan?

Hvernig á pólitísk skipuð stjórn að geta metið þær flóknu viðskiptalegu og tæknilegu forsendur sem liggja á bak við verkefni eins og sæstrenginn?  Hér verður stjórnin annað hvort að treysta á framkvæmdastjórnina eða utanaðkomandi sérfræðinga.  En það skapar vandamál. Hættan er að framkvæmdastjórnin verði þá of valdamikil og að stjórnin geti ekki veitt henni eðlilegt aðhald og eftirlit eða að aðkeyptir sérfræðingar fái of mikil völd og fari að stýra verkefninu í sína þágu.

Í slíkri stöðu er auðveldast fyrir stjórnina að líta á verkefnið sem pólitískt og þar með endar það í þrasi og rifrildi stjórnmálamanna sem aldrei munu geta komið sér saman um neitt skynsamlegt.  Ef verkefnið fer af stað þá verður það á pólitískum forsendum og líkur eru á að það fari sömu leið og Vaðlaheiðargöngin eða Landeyjahöfn?

Er ekki komin nóg reynsla af pólitískri stjórn opinberra orkufyrirtækja á Íslandi?  Er ekki kominn tími til að læra af Norðmönnum og Svíum hvernig best er að stjórna slíkum fyrirtækjum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur