Miðvikudagur 22.04.2015 - 09:33 - Lokað fyrir ummæli

Salan á FIH og tap Seðlabankans

Nokkrar umræður hafa spunnist um söluna á FIH sem Seðlabankinn tók allsherjar veð í fyrir hrun. Þetta er nokkuð flókið og margslungið mál. Danskir fjölmiðlar gerðu þessu góð skil 2010 og þá ritaði ég eftirfarandi færslu:

“Danir hafa þvingað fram brunaútsölu á FIH bankanum sem Seðlabankinn lánaði nær 80 ma kr. rétt áður en Kaupþing hrundi. Eftir að hafa selt Íslendingum bankann á yfirverði (um 160 ma kr.) fá Danir hann nú aftur tilbaka á slikk. Sá hlær best sem síðast hlær.

Kaupverðið hefur ekki verið uppgefið og dönskum heimildum ber ekki saman um verðið. Samkvæmt TV2 er talað um verð í kringum 40 ma kr. Ef þetta er rétt mun Seðlabankinn þurfa að afskrifa um helming af láni sínu til Kaupþings, en fyrir þá upphæð væri hægt að reka Landspítalann í rúmt ár. Samkvæmt Berlinske Tidende er verðið hærra, allt að 80 ma kr. sem nægði til að dekka skuldina, en þetta er ekki staðgreiðsluverð heldur mun verðið vera háð afkomu bankans á næstu árum.

Hvert sem hið endanlega verð verður eru Danir að gera reyfarakaup. Sölunni verður að vera lokið fyrir 30. september svo kaupendur sitja bara sallarólegir og bíða. Þeir vita sem er, að með Icesave í klemmu eru flestar leiðir lokaðar Íslendingum og því er hægt að eignast bankann á miklu undirverði.

Icesave deilan verður líklega talsverð búbót fyrir danska lífeyrissjóði.”

FIH salan er gott dæmi um hvernig Danir notuðu Icesave deiluna til að snúa á Íslendinga. Þegar menn loka sig frá hinum alþjóðlega fjármálamarkaði opnast tækifæri fyrir aðra. Hinn óbeini kostnaður af Icesave og töpuð tækifæri sem fylgdu í kjölfarið verða líklega ekki gerð upp af núverandi kynslóð.  Þetta verður hins vegar spennandi rannsóknarefni eftir um það bil 50 ár.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur