Föstudagur 01.05.2015 - 08:50 - Lokað fyrir ummæli

Laun í krónum er þversögn

Lágmarkslaun á Íslandi verða aldrei stöðugri en krónan.  Í dag eru lágmarkslaun um 210,00 kr. á mánuði sem eru ein lægstu laun í Norður-Evrópu. Krafan um 300,000 kr. er eðlileg en hætt er við að erfitt verið að ná varanlegri launahækkun með verkföllum einum saman. Meira þarf til.

Það eru aðeins 4 lönd í Evrópu sem hafa náð því marki að viðhalda lágmarkslaunum yfir 300,000 kr. markinu (2,050 evrur). Það eru Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Sviss.  Næst kemur Lúxemborg með 285,000 kr.  Evrulönd á við Frakkland, Þýskaland, Holland, Finnland og Belgíu setja lágmarkslaun við 1,500 evrur eða 220,00 kr.  Af Norðurlöndunum rekur Ísland því lestina rétt á eftir Finnlandi en bæði löndin hafa álíka þjóðarframleiðslu á mann.  Fyrir þá sem segja að 500,000 kr. séu lágmarkslaun til framfærslu á Íslandi er aðeins eitt land í heiminum sem uppfyllir þá kröfu, Sviss.

En hvað einkennir þau lönd sem geta boðið upp á 300,000 kr. lágmarkslaun.  Jú, þessi 4 lönd eru sterk velferðarlönd, með trausta efnahagsstjórnun, háa landsframleiðslu, alþjóðlega viðurkennda gjaldmiðla, búa við hátt lánstraust og lága vexti. Þau njóta trausts og virðingar í heiminum og ekki síst á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði.   Þá vita allir sem hafa heimsótt þessi lönd að þjónusta er dýr og húsnæðiskostnaður hár.  Það eru margir sem vinna í Danmörku og Sviss en versla í Þýskalandi.

Ef lágmarkslaun eru hækkuð um 30-50% á Íslandi þá mun öll þjónusta hækka í verði, það er óhjákvæmilegt.  Auðvitað veldur það tímabundinni verðbólgu og ferðaþjónustan verður fyrir erfiðu höggi, en skynsamlegast er að menn vinni saman um að komast yfir þann hjalla.  300,000 kr. lágmarkslaun verða nefnilega aldrei að veruleika nema með samvinnu – sundrung og verkföll leysa engan vanda. Eitt fyrsta skrefið er að leysa gjaldmiðlavanda landsins.   Með krónunni verða lágmarkslaun aldrei varanleg, verðtryggingin sér til þess, en hún er eitt helsta einkenni annars flokks gjaldmiðils. Og fyrsta flokks velmegun verður aldrei tryggð með annars flokks gjaldmiðli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur