Sunnudagur 03.05.2015 - 09:05 - Lokað fyrir ummæli

Verkföll tefja haftalosun

Höftin verða nú varla leyst á meðan allt logar í verkföllum.  Slíkt væri óábyrgt.  Gengið myndi strax falla meir en ella vegna aukinnar óvissu sem felst í óleystum og ófjármögnuðum vinnudeilum. Þannig skýtur það nokkuð skökku við að forsætisráðherrann virðist leggja meira kapp á að semja við erlenda kröfuhafa en íslenskt launafólk.  Liggur virkilega meira á að koma haftamálinu í gegn fyrir þinglok en að finna lausn á kjaradeilunni?  Á hvaða forsendum er það byggt?

Eins og margir hafa bent á eru ytri aðstæður til að losa um höftin góðar, en innri aðstæður hafa versnað. Kjaradeilur ógna stöðugleika meira en kröfuhafar og þær munu hafa meiri áhrif á gengi krónunnar til lengri tíma litið. Mál kröfuhafa er afmörkuð einskiptisaðgerð.  Þegar það er búið fara kröfuhafar og munu ekki koma aftur. Það verður ekki eins auðvelt að finna skynsamlega og ásættanlega lausn á kjaradeilu launafólks, og þær lausnir verða ekki varanlegar eins og sagan kennir okkur.

Það sem flækir málið og takmarkar lausnarmengið er lélegur aðgangur landsins að erlendum fjármálamörkuðum.  Það er ekki lengur hægt að fá aukin lífskjör að „láni“ erlendis.  Nú verða menn að sníða sér stakk eftir styrk útflutningsgeirans til gjaldeyrisöflunar. Þetta þýðir að ef launahækkanir verða meiri en sem nemur vexti í gjaldeyrisbúskap landsins verða fleiri krónur að elta sömu evruna. Lausnin á því vandamáli er annað hvort hert höft eða gengisfelling. Þannig er ljóst að ef höftin verða losuð eftir verkföll fellur króna í réttu hlutfalli við ófjármagnaðar launahækkanir.

Það er því ansi ólíklegt að hægt verði að losa höftin án þess að gengið falli með viðeigandi verðbólguskoti.  Eina leiðin til að verja gengið er með áframhaldandi höftum.  Draumurinn um haftalausa krónu fjarlægis með harðnandi verkfallsaðgerðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur