Laugardagur 30.05.2015 - 18:00 - Lokað fyrir ummæli

Launamisrétti krónunnar

Launamisrétti á Íslandi ræðst að miklum leyti af því hvaða peningahóp fólk tilheyrir.

Gróft séð má skipta þjóðinni í 3 gjaldmiðla hópa.

Í fyrsta flokki eru þeir sem standa í útflutningi og gera upp í erlendum gjaldeyri. Stærstu aðilarnir í þessum hóp, eins og sjávarútvegsfyrirtækin eru að mestu leyti einangruð frá krónuverkuleikanum. Þau geta tekið erlend lán og þessi hópur upplifir krónuna meir eins og erlendir ferðamenn, fá helling af krónum fyrir sinn gjaldeyri.

Í öðrum flokki eru þeir sem geta notað verðtryggða krónu. Þetta eru t.d. fjárfestar, leigusalar, aðilar sem standa í sjálfstæðum rekstri og geta velt verðhækkunum fyrir á aðra, og svo lífeyrisþegar sem fá greitt úr sjóðum sem eiga miklar verðtryggðar eignir. Þá er fjármálageirinn að miklu leyti í þessum hópi enda auðvelt að haga hlutum svo að tekjur þar séu að mestu verðtryggðar.

Í þriðja flokki eru svo almennir launamenn sem fá greitt í óverðtryggðum krónum. Þessi hópur ber oftast minnst úr býtum en ber stærstu áhættuna af óstöðugleika og verðbólgu. Verst staddir í þessum þriðja flokki eru lífeyrisþegar og öryrkjar sem þurfa að treysta alfarið á hið opinbera kerfi. Þar fara saman lægstu kjörin en mesta áhættan. Svo er þessi hópur verðlagður út af helstu mörkuðum landsins svo sem húsnæðismarkaði og fjármálamarkaði af fólki í fyrsta og öðrum flokki.

Svona peningaleg stéttaskiptingi getur aldrei gengið upp til lengdar og er uppskrift að eilífum átökum. Það er í raun aðeins ein jafnréttisleið út úr þessum vanda og það er að allir taki upp sama gjaldmiðil eins og fyrsti flokkur, nefnilega stöðuga erlenda mynt! Allar krónuleiðir munu leiða til misréttis á milli þjóðfélagshópa vegna þess að stærstu og öflugustu aðilar landsins hafa fyrir löngu kastað krónunni. Svo einfalt er það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur