Laugardagur 23.05.2015 - 12:55 - Lokað fyrir ummæli

Verðtryggða krónu fyrir alla

Fjárfestar hafa val. Þeir geta valið á milli verðtryggðra og óverðtryggðra samninga. Launþegar hafa ekkert slíkt val, þeir verða að dröslast með óverðtryggða krónu sem fáir vilja sjá.

Sama hvernig kjarasamningar launþega fara, fjárfestar eru á grænni grein. Þeir munu alltaf koma betur út en flestir aðrir, vegna þess að þeir hafa val. Ávöxtunarkrafa á óverðtryggða fjámálagjörninga hefur þegar rokið upp áður en kjarasamningar eru í höfn. Krafa fjárfesta fæst með væntingum en ekki verkföllum. Og því hærri sem samningar launþega verða þeim mun hærri verður vaxtahækkunin til fjárfesta. Sjálfstæður seðlabanki sér til þess með dyggum stuðningi frá AGS.

Gamla leiðin út úr þessari klemmu er að gera Seðlabankann pólitískan og handstýra vöxtum, en þá þarf höft, því annars kollsteypist gengi krónunnar. En þar sem ríkisstjórnin setur afnám hafta í forgang er þessi leið illfær og því detta fjárfestar í tvöfaldan lukkupott, fá hærri vexti og enn meira val. Það er því vandséð að nokkur stétt komi betur út úr kjaradeilunni en fjárfestar. Þeirra “kjarasamningar” eru í raun verðtryggðir.

Skynsamlega leiðin er að gefa launþegum val, þeir eiga eins og fjárfestar, að geta valið um óverðtryggða eða verðtryggða kjarasamninga. Slíkt myndi auka stöðugleika og gefa fyrirtækjum hvata til að fjárfesta í framlegðaraukandi aðgerðum. Atvinnuleysi myndi aukast tímabundið og illa rekin fyrirtæki færu á hausinn, enda gera verðtryggðir launasamningar miklu hærri kröfur til stjórnunar fyrirtækja og stofnana. Þessi leið er í raun nauðsynlegur áfangi á þeirri vegferð að taka upp alvöru gjaldmiðil í framtíðinni. Alveg eins og lítil börn læra að pissa í kopp er kominn tími til að Íslendingar læri að lifa án gengisfellinga og óðaverðbólgu. Einhvers staðar verða menn að byrja.

En litlar líkur eru á að þessi leið verði farin, til þess eru Íslendingar einfaldlega of íhaldssamir, þeir hræðast breytingar og hagsmunaöfl óverðtryggðrar krónu fyrir launafólk eru of sterk. Launþegar munu því áfram þurfa að borga fyrir verðtryggingu fjárfesta með óverðtryggðum launasamningum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur