Föstudagur 22.05.2015 - 12:28 - Lokað fyrir ummæli

AGS: Minni hagvöxtur 2016-17

Það er alltaf athyglisvert að lesa skýrslur AGS um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Þetta eru skýrslur sem erlendir aðilar bera mikið traust til, enda eiga Íslendingar enga sjálfstæða stofnun í þessum málaflokki.

Kjaradeilan er ofarlega í hugum AGS manna og telja þeir að kjarasamningar sem ekki er innistæða fyrir geti tafið bæði fyrir efnahagsbatanum og afnámi hafta.  Þá hvetja þeir Íslendinga til að vinna með erlendum aðilum í samvinnu og grípa ekki til aðgerða sem mismuni fólki.  Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem AGS varar við séríslenskum einstrengishætti þegar kemur að samningagerð og skorti á vilja til að semja á skynsamlegum nótum.  Þá eru í skýrslunni hinar venjulegu ítrekanir AGS um mikilvægi sjálfstæði Seðlabankans og nauðsyn þess að styrkja FME, en sú ítrekun hefur meira vægi nú eftir hið vandræðalega fall Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Þegar kemur að afnámi hafta eru aðstæður hagstæðar nú, að mati AGS, en kjarasamningar gætu tafið afnámsferlið.  AGS útilokar ekki skattheimtu sem tæki við losun hafta en telur skynsamlegt að ríkisstjórnin grípi til varúðarráðstafana skyldi skattheimtan enda fyrir dómstólum.  Þá hvetur AGS til þess að hugsanlegar heimtur af stöðugleikaskatti verði notaðar til að lækka skuldir ríkissjóðs.

Hið dökka ský í skýrslu AGS eru áhrif kjarasamninga á hagvöxt 2016-17.  Ef kjarasamningar verða umfram framleiðslugetu þjóðarbúsins verður að herða á peningamálastjórnuninni og grípa til aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum.  Þetta þýðir hækkun á vöxtum og AGS leggur til að skattar verði hækkaðir í gegnum samræmingu á virðisaukaskattþrepum með aðgerðum til að verja hina lægst launuðu. Afleiðingin verður minni hagvöxtur á næstu árum.

Því miður eru skýrslur AGS ekki mikið ræddar á Íslandi og eflaust eru þær, af mörgum, afgreiddar eins og erlendar skýrslur fyrir hrun sem “hræðsluáróður” útlendinga sem lítið skilja óskiljanlega Íslendinga.  Stóri munurinn nú og þá er að Ísland er á undanþágu frá ESB með frjálst flæði fjármagns innan EES.  Sú undanþága byggir á því skilyrði að Íslendingar hagi sér “skynsamlega” og fylgi ráðum AGS, en líta má á AGS sem eftirlitsaðila ESB á Íslandi.  Allt tal um að Ísland sé efnahagslega sjálfstæðara en hin Norðurlöndin sem eru innan ESB er barnaskapur.  ESB og AGS hafa mikil ítök á bak við tjöldin á Íslandi sem lítið er talað um.  Í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld töldu menn að efnahagslegt sjálfstæði væri skilyrði fyrir pólitísku sjálfstæði.  Í dag sópa menn þessu öllu undir teppið og halda að nóg sé að tala digurbarkalega.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur