Miðvikudagur 13.05.2015 - 07:51 - Lokað fyrir ummæli

Fjármagnskostnaður hækkar

Sú nýja túlkun að tap þrotabúa eigi að skattleggja mun breyta allri fjármögnun fyrirtækja í framtíðinni, standi þetta álit. Afleiðingin verður dýrari fjármögnun, einhæfara atvinnulíf og aukið atvinnuleysi. Það er ekki hægt að hækka bæði fjármagnskostnað og launakostnað fyrirtækja á sama tíma, nema eitthvað gefi eftir.

Spurningin sem fjárfestar velta fyrir sér eftir að þessi nýja staða er komin upp er hver sé munurinn á hlutabréfum og almennum skuldabréfum á efnahagsreikningi íslenskra fyrirtækja m.t.t. áhættu? Miklar líkur eru nú að bæði verði verðlaus við þrot. Þar með þurfa fjárfestar að endurverðleggja skuldabréfafjármögnun í ljósi aukinnar áhættu. Arðsemiskrafa á skuldabréfum færist nær hlutabréfakröfunni – fá fyrirtæki geta staðið undir slíku. Eina leið fyrirtækja til að ná í lánsfé á viðráðanlegum kjörum er að leggja fram mjög öruggar tryggingar. Þetta þýðir að aðeins stöndugustu og eignamestu fyrirtækin fá bestu lánskjörin, kjör annarra versna og í réttu hlutfalli við tapáhættu fjárfesta við þrot.  Ríkið refsar nefnilega þeim fjárfestum sem ekki heimta nógu góð veð!

Nýsköpun mun færast úr landi enda verður Ísland endanlega ósamkeppnishæft á fjármögnunarmarkaði með bæði hávaxtakrónu og fjármálastrúktúr þar sem lítill munur er á lánsfé og hlutafé. Þá verður ríkisábyrgð á lánum enn verðmætari og mikill þrýstingur mun skapast frá atvinnulífinu að ríkið hjálpi til, til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það má halda vel á spöðum til að slíkar ráðstafanir fari ekki að grafa undan ríkisfjármálum og endanlega krónunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur