Mánudagur 11.05.2015 - 07:40 - Lokað fyrir ummæli

Allt í molum

Ríkisrekið heilbrigðiskerfi má muna sinn fífil fegri. Þegar ríkið getur ekki lengur tryggt öryggi sjúklinga segja þeir aðilar sem bera ábyrgð á kerfinu yfirleitt af sér. Erlendis væri heilbrigðisráðherra og líklega landlæknir búnir að segja af sér á þessum tímapunkti. Í raun stæðu allar ríkisstjórnir í hinum siðmenntaða heimi á bláþræði í svona alvarlegri deilu. Hvergi væru ráðherrarstólar taldir mikilvægari en dauðvona sjúklingar.

Í raun er staðan sérstaklega alvarleg á Íslandi þar sem almennir sjúklingar hafa ekkert val. Ef ríkisspítalinn lokar eru það aðeins þeir efnamestu sem geta leitað á erlenda prívatspítala. Þannig er ójöfnuður til heilbrigðisþjónustu líklega hvergi meiri í Norður-Evrópu en einmitt nú á Íslandi.

Lausn á þessari deilu krefst forgangsröðunar og skilnings á þeirri staðreynd að fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta verður ekki rekin nema á heimsmarkaðsverði, líkt og menn verða að kaupa olíu og bensín á heimsmarkaðsverði. Þvi verður fjárveiting til heilbrigðismála að taka mið af því. Það er tilgangslaust að telja mönnum trú um að hægt sé að reka ríkið hallalaust með því að fjársvelta heilbrigðiskerfið. Ef ríkið ræður ekki við þessi útgjöld verður að finna aðrar lausnir, en án heilbrigðiskerfis þrífst ekkert samfélag.

Lausn á vandamálum heilbrigðisþjónustu á Íslandi verður að setja í forgang. Hér þurfa stjórnvöld að marka skýra stefnu og girða heilbrigðsmálin frá öðrum málaflokkum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur