Sunnudagur 10.05.2015 - 08:04 - Lokað fyrir ummæli

Hvers vegna tapaði Miliband?

Helgarblöðin í Bretlandi velta sér upp út kosningaúrslitunum og mikið er spekúlerað hvers vegna Verkamannaflokkurinn tapaði og Íhaldsmenn sigruðu?

Grunnstefið í kosningabaráttu Miliband´s var að ráðast á ójöfnuð í samfélaginu. Þetta átti að vera lykillinn að betra velferðarkerfi og betri kjörum fyrir 90% þjóðarinnar, hin 10% áttu svo að borga. Vandamálið er að enskir kjósendur kaupa ekki svona marxíska einföldun. Þeir vita að til þess að fá betri kjör er ekki nóg að lofa að skipta kökunni jafnar, það þarf líka að huga að því að kakan sé ekki fengin að láni. Til að skipta auði þarf að skapa hann fyrst.

Íhaldsmenn hömruðu hins vegar á mikilvægi traustrar efnahagsstjórnunar og gátu þar vísað í góðan árangur Osborne´s, fjármálaráðherra þeirra í síðustu stjórn. Enda telja margir að Osborne hafi átt stærstan þátt í sigri Íhaldsmanna. Þá passaði Cameron sig á því að halda Íhaldsflokknum sem breiðri fylkingu þar sem pláss er bæði fyrir andstæðinga og fylgjendur ESB aðildar. Hann lofar þjóðaratkvæði um ESB og menn treysta því að hann standi við það loforð.

Íslenskir stjórnmálaflokkar gætu lært ýmislegt af breskum stjórnmálamönnum ef þeir kærðu sig um, en líklega er fjórflokkurinn svo stútfullur af besserwisserum að ekkert pláss er þar fyrir nýjar hugmyndir og áherslur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur