Fimmtudagur 07.05.2015 - 07:11 - Lokað fyrir ummæli

Icesave leið úr höftum

Fjármálaráðherra segir að halda eigi genginu stöðugu þegar höftin verða losuð og sumir eru farnir að tala um að gengið hækki í kjölfarið, þar sem útlendingar munu flykkjast með evrur, jen og dollara til Íslands til að fá hina háu krónuvexti. Þetta er ekkert nema Icesave í nýjum búningi. Enn eina ferðina á að lokka fé útlendinga til landsins með háum vöxtum. Nú til að losa höftin og viðhalda stöðugleika. En hver borgar brúsann?

Hvað á að gera við þetta fjármagn sem sumir halda að muni streyma til landsins? Hvaða atvinnugreinar geta staðið undir okurvöxtum til útlendinga í gjaldeyri? Það eru auðlindagreinarnar. En þar sem stærstu fyrirtækin í þeim flokki geta fjármagnað sig beint og milliliðalaust er hætt við að allt þetta nýja hávaxtafjármagn fari beint í neyslu og þá verður að borga vextina með því að ná í meira fjármagn erlendis! Fólk mun aftur finna fyrir kaupmáttaraukningu sem engin innistæða er fyrir. Svo mun á einhverjum tímapunkti koma bakslag í innflæðið og þá er ekki lengur hægt að redda gjaldeyri til að borga útlendingunum. Þá verður að takmarka útflæði á gjaldeyri með höftum, skattlagningu og/eða gengisfellingu. Hljómar kunnulega?

Eini munurinn nú og fyrir hrun er að margir erlendir aðilar gera sér grein fyrir sumum áhættuþáttum Íslands. Þeir endurspeglast í lélegu lánshæfi landsins sem er ekki lengur í A flokki. Þar með verður krafan um háan raunvaxtamun enn hærri en þegar Icesave átti að redda Landsbankanum. Erlendir lífeyrissjóðir og varkárir fjárfestar munu ekki taka þátt í svona leik – brennt barn forðast eldinn. En þetta verður spennandi leikur fyrir áhættusækna “hrægamma” sem vita að Ísland er fast á þeirra yfirráðasvæði svo lengi sem menn halda dauðahaldi í krónuna.

Stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði er ekki ókeypis og það vita “hrægammar”. Kostnaðurinn við krónuna fer því vaxandi og “hrægammar” munu gera sér góðan mat úr því. Þeir vita að sumar orrustur tapast, en þegar litið er til lengri tíma græða flestir áhættusæknir vogunarsjóðir alltaf á krónunni og því frjálsari sem krónan er því meiri er hagnaðarvonin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur