Sunnudagur 07.06.2015 - 07:44 - Lokað fyrir ummæli

Bankasala keisarans

Nokkrar umræður hafa spunnist um hina svokölluðu “sölu” á nýju bönkunum rétt eftir hrun. Menn tala um að ríkið hafi tapað milljörðum í þessari “sölu”. Hér held ég að gæti ákveðins misskilnings.

Ríkið var ekki að selja banka heldur að fjárfesta í nýju bankakerfi. Réttara er að gagnrýna þær fjárfestingarákvarðanir sem teknar voru þegar nýju bankarnir voru stofnaðir og eiga líklega eftir að koma í veg fyrir að ríkið nái að hámarka þessa fjárfestingu. Tæknilega séð þurfti að stofna nýja banka, en þeir voru verðlausir án eigna kröfuhafa enda voru gömlu bankarnir í einkaeigu og eignir verða ekki teknar af mönnum nema að fullar bætur komi þar til. Það verðmæti sem hefur „skapast“ frá hruni er að mestu leyti endurmat á eignum gömlu bankanna sem ríkið átti aldrei. Það að það klúðraðist að kaupa lykileignir af kröfuhöfum strax eftir hrun á verði þess tíma er tapað fjárfestingartækifæri en ekki eignatilfærsla frá ríkinu til kröfuhafa. Nú á að reyna að snúa klukkunni við og reyna að endurvekja þetta fjárfestingartækifæri með stöðugleikaskatti, en það er annað mál.

Það voru engir viljugir kaupendur að nýjum bönkunum 2009. Kröfuhafar voru hálfpartinn þvingaðir til að taka eignarhluta í bönkunum í skiptum fyrir eignir þeirra. Þeir hefðu helst viljað að ríkið hefði átt alla bankana en það var ekki mögulegt vegna þess að ríkið átti enga peninga til að fjármagna efnahagsreikning þeirra allra. Hefði ríkið ætlað sér að fjármagna alla bankana og eiga þá alla hefði það kostað gríðarlegan niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Það hefði auðvitað ekki verið forsvaranlegt svo menn urðu að ná samningum við kröfuhafa til að endurreisa bankana. Það var þetta peningaleysi ríkisins – enda var þá nýbúið að tæma Seðlabankann – sem styrkti stöðu kröfuhafa á þessum tíma.

Menn verða líka að muna að markaðsverð banka í Evrópu á þessum tíma var langt undir bókfærðu virði og enn eru bankar sem lentu illilega í kreppunni 2008 með markaðsvirði undir bókfærðu virði, þar á meðal stórir bankar í Þýskalandi. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort markaðsvirði nýju íslensku bankanna nær bókfærðu virði eða ekki. En þar eru bankarnir þrír misvel staddir í dag og það er sú staða sem mun líklega ráða mestu um hvert “tap” ríkissjóðs verður.

Spurningin sem spyrja þarf er hvers vegna er eignarhlutur ríkisins að mestu í Landsbankanum? Af hverju völdu menn Landsbankann? Og hvers vegna fengu kröfuhafar 95% í besta banka landsins? Líklega spilaði Icesave þarna inn í, en það var áhætta að láta næstum alla fjárfestingu ríkisins í þann banka sem var mest laskaður eftir hrunið. Og sú ákvörðun á líklega eftir að skipta mestu máli þegar menn í framtíðinni gera upp hagnað eða tap ríkisins á fjárfestingu þess í endurreisn bankakerfisins.

Það hefði líklega verið betra fyrir ríkissjóð hefðu menn tekið 30-40% hlut í öllum bönkunum og haldið eftir svokölluðu ráðandi hlutabréfi, “golden share”, þar sem ríkið hefði haft neitunarvald yfir ákvörðunum um eignarhaldi og sölu bankana. Þar með hefði ríkið fengið betri áhættudreifingu og meiri arðsemi. Það eru einmitt þessi innri fjárfestingarhlutföll ríkisins í bönkunum sem hægt er að gagnrýna málefnalega. En þau snérust um kaup en ekki sölu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur