Laugardagur 20.06.2015 - 07:21 - Lokað fyrir ummæli

Kanadískan banka, takk!

Ef Íslendingar geta ekki fengið kanadíska dollarann sem gjaldmiðil ættu þeir að reyna að fá kanadískan banka til landsins.

Það varð ekkert bankahrun í Kanada, því þar kunna menn að reka banka. Í Kanada er mikil reynsla af því að reka banka sómasamlega í 20 ár samfellt. Engin slík reynsla er á Íslandi og því fylgir því mikil áhætta að láta alla bankana aftur í hendi Íslendinga. Hvað kunna menn á Íslandi fyrir sér í bankarekstri? Það eru auðvitað til einstaka menn sem hafa góða reynslu erlendis frá, en það er ekki nóg, það vantar nútíma 21. aldar bankakúltúr á Íslandi. Hann fæst frá Kanada.

En það er ekki aðeins að Kanadamenn hafi reynslu af rekstri banka í Kanada, fáir bankar hafa jafnmikla reynslu af bankarekstri á litlum eyjum með einhæft atvinnulíf, óstöðugan gjaldmiðil, háa verðbólgu og krónískan gjaldeyrisskort en kanadískir bankar. Þessa reynslu hafa þeir af bankarekstri úr Karabíska hafinu og suður-Ameríku.

Sérstaklega er reynsla kanadískra banka í Perú athyglisverð. Þar nota menn tvöfalt gjaldmiðilskerfi – sol og dollara. Tæpur helmingur fasteignalána í Perú er í dollurum hinn í gjaldmiðli Perú, sol. Þetta er reynsla sem hentar vel hér á landi, enda er ljóst að ef höftin hverfa þá mun stór hópur launamanna kasta krónunni eins og stærstu fyrirtæki landsins hafa þegar gert. Menn munu vilja fá laun greidd í evrum og hafa lán sín í evrum. Fordæmið kemur frá Perú og kanadískir bankar hafa reynsluna.

Þá skemmir það ekki fyrir að fjöldi vestur-Íslendinga vinnur í kanadískum bönkum svo þeir ættu að smjúga í gegnum þjóðrembufilter Íslendinga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur