Miðvikudagur 24.06.2015 - 06:03 - Lokað fyrir ummæli

EES gerir afnám hafta erfitt

Það eru ekki kröfuhafar sem verða þeir erfiðustu þegar kemur að afnámi hafta, það hlutverk hefur ESB. Nú þegar Ísland hefur gefið út yfirlýsingu um að afnám hafa standi yfir er eðlilegt að álykta sem svo að EES undanþágan sem Ísland hefur haft frá hruni um frjálst fjármagnsflæði sé á endastöð. ESB gefur ekki afslátt af fjórfrelsinu sem er hornsteinn ESB og EES samstarfsins. Það hafa bæði Svisslendingar og Bretar fengið að heyra og Íslendingar fá líklega sömu meðferð reyni þeir að fá varanlega undanþágu frá frjálsu fjármagnsflæði. En hvað felst í frjálsu fjármagnsflæði.

Samkvæmt skilgreiningu ESB þýðir frjálst fjármagnsflæði frelsi einstaklingsins og fyrirtækja til að ráðstafa fjármagni sínu jafnt innanlands sem utan. Þetta þýðir t.d. að einstaklingar eiga að geta opnað bankareikninga erlendis, keypt erlendar fasteignir, hlutabréf og skuldabréf án leyfis eða takmarkana frá stjórnvöldum. Tal íslenskra ráðamanna og hagfræðinga um að það sé nauðsynlegt að stjórna fjármagnsflæði til og frá landinu eftir afnám til að tryggja stöðugleika, stríðir gegn skilgreiningunni um frjálst fjármagnsflæði. Það verður því athyglisvert að sjá hvernig Ísland, með minnsta gjaldmiðil heims, ætlar að stjórna krónunni með varúðarreglum sem ekki skerða frelsi einstaklingsins sem EES samningurinn á að tryggja. Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Erfitt er að sjá að Ísland geti uppfyllt ákvæði EES með gjaldmiðil sem á að stjórna en fær ekki um frjálst höfuð strokið. Ef Ísland ætlar að halda í krónuna um ókominn tíma eru dagar Íslands innan EES líklega taldir. Menn þurfa því að fara að leita að nýrri utanríkisstefnu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur