Þriðjudagur 30.06.2015 - 07:02 - Lokað fyrir ummæli

Hvers vegna lokar Actavis?

Af hverju lokar Actavis verksmiðju sinni hér á landi? Nú er Ísland á margan hátt kjörið land til lyfjaframleiðslu, hér er hreint vatn og loft, græn orka og menntað starfsfólk á lágum launum. Vandamálið er hins vegar íslenskur óstöðugleiki, hátt vaxtastig og frumstæður fjármálamarkaður íslensku krónunnar.

Er samband á milli þess að Ísland dregur ESB umsókn sina tilbaka og lokunar hjá Actavis? Hver veit? Þessi lokun virðist líka koma stjórnmálamönnum á óvart sem sýnir hversu lítil sambönd þeir hafa við atvinnulífið. Hvers vegna er verksmiðjan á Íslandi ekki stækkuð? Er Ísland ekki samkeppnishæft? Menn virðast vera feimnir við að spyrja svona.

Þessi lokun sýnir vel hversu erfitt það er að auka fjölbreytni í atvinnulífinu án ESB aðildar. Menn eru fastir í auðlindageiranum. Ísland er ferðamennska, orkuiðnaður og sjávarútvegur. Afleiðingin er útstreymi af háskólamenntuðum Íslendingum og innstreymi af grunnskólamenntuðum útlendingum frá ESB löndunum. Þetta telur meirihluti landsmanna að sé mun heillavænni langtíma stefna fyrir þjóðina en ESB aðild. Gott og vel, en fyrir hverja?  Einhvern vegin læðist að manni sá grunur það á endanum munu afkomendur Ingólfs Arnarsonar tapa.  Hversu lengi verður íslenskan aðaltungumál þeirra sem byggja Ísland?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur