Þriðjudagur 07.07.2015 - 05:47 - Lokað fyrir ummæli

Grikkland og Ísland

Vaxtagjöld Grikklands eru 2.6% af landsframleiðslu en 4.5% á Íslandi. Grikkir eru að kikna undan skuldum en hvað með Ísland?  Munurinn er að skuldir Grikkja eru hjá vondum útlendingum en ekki innlendum aðilum eins og t.d. lífeyrissjóðum. Það skiptir máli hvort lánadrottnar hafi kosningarétt þar sem þeir lána. Það er ein lexían af gríska dramanu.

Þjóðverjar vita mæta vel að Grikkir munu aldrei borga þessi lán tilbaka. Og þar liggur vandinn. Þetta snýst ekki um afskriftir, þær munu koma. Þetta snýst um að láta þýska skattgreiðendur fjármagna kosningaloforð grískra stjórnmálamanna. Grikkir vilja nefnilega fá bæði niðurfellingu á gömlum lánum og ný lán til að fjármagna nýju loforðin. Hin 18 evrulöndin vilja hins vegar að Grikkir taki til hjá sér og sýni að þeir geti farið vel með nýtt fjármagn áður en lengra er haldið, en Grikkir vilja sem minnstu lofa í þeim efnum.

Grikkir þurfa ný lán til að örva hagkerfið hjá sér en gríska ríkisstjórnin virðist ekki hafa nein trúverðug plön í þeim efnum. Það er nefnilega ekki nóg að stoppa niðurskurð, það þarf að fjárfesta í verkefnum sem standa undir lánum. Endalausar yfirlýsingar og hroki í garð lánadrottna er engin lausn. Og það er heldur engin lausn að taka upp drökmu, hver á þá að fjármagna loforð grískra stjórnmálamanna? Þetta er ein ástæða þess að Grikkir hanga á evrunni, þannig fá þeir aðgang að „niðurgreiddu“ fjármagni sem lönd eins og Ísland geta aðeins látið sig dreyma um.

Gríska deilan snýst um hver á að borga brúsann. Þjóðaratkvæðisgreiðslan er engin lausn í sjálfu sér, bankar munu ekki opna í Grikklandi í dag eins og lofað var. Menn þurfa að semja, hjá því verður ekki komist. Þjóðaratkvæðisgreiðslan mun hins vegar hafa afleiðingar. Hún hefur veikt evrulöndin og ekki síst Grikkland sem nú mun þurfa um helmingi hærri lán til að rétta úr kútnum en hefði þurft fyrir sex mánuðum. Þessi töf mun kosta meiri lífskjaraskerðingu en ella. Þá mun verða mun erfiðara og dýrara fyrir lítil og óstöðug hagkerfi að fá erlend lán í framtíðinni. Lánadrottnar verða nú að fara að verðleggja þessi lán eins og áhættufjárfestingu. Það verður lítill munur á hlutafé og skuldafé í veikustu hagkerfunum. Það má því búast við að það verði meiri fylgni á milli lífskjara og aga í ríkisfjármálum í framtíðinni. Þannig mun þjóðaratkvæðisgreiðslan í Grikklandi styðja við þýsku leiðina þegar allt kemur til alls.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur