Sunnudagur 12.07.2015 - 07:38 - Lokað fyrir ummæli

Bankahöll er tímaskekkja

Á meðan bankar á Wall Street eru að færa starfsemi sína frá miðborg New York til að auka samkeppnishæfni er íslenski ríkisbankinn á tímaflakki til fortíðar. Enginn alvöru banki sem þjónar almenningi á samkeppnismarkaði myndi detta í hug að sameina starfsemi sína á dýrasta stað. Útskýringar bankans um að húsið muni ekki skyggja á Hörpuna og að kostnaður muni lækka frá núverandi fyrirkomulagi eru útskýringar einokunarfyrirtækis. Fyrirtæki sem starfa á alvöru samkeppnismarkaði geta ekki hagað sér svona. Þessi ákvörðun sýnir vel að íslenskur bankamarkaður býr við bjagað samkeppnisumhverfi sem ekki þjónar almenningi.

Tímasetningin er líka athyglisverð. Húsnæðisvandamál Landsbankans hafa verið vel þekkt um langan tíma. Besti tíminn til að koma Landsbankanum í látlaust og hagkvæmt húsnæði var fyrir 4-5 árum? Hvers vegna var það ekki gert? Hvað stóð í vegi fyrir því?

Maður fær stundum á tilfinninguna að Landsbankinn sé rekinn að „grískri“ fyrirmynd. Arðsemi af reglulegum rekstri bankans er óviðunandi og undir ávöxtunarkröfu 10 ára ríkisskuldabréfa, en það kemur ekki í veg fyrir nýja miðbæjarhöll, eða eins og formaður bankaráðs sagði á síðasta aðalfundi:

Þegar stórum einskiptisliðum sleppir þá var arðsemin á liðnu ári um 5-6% sem er of lágt. Bankasýslan sem fer með eignarhlut ríkisins í bankanum hefur lagt að bankaráðinu að bæta reglubundinn rekstur með lækkun kostnaðar og aukningu þjónustutekna. Við erum sammála þeirri kröfu og einmitt þess vegna höfum við mótað nýja stefnu fyrir bankann sem miðar að því að ná arðsemi af reglubundnum rekstri yfir 10% á næstu fjórum árum.

Hvernig nýjar aðalstöðvar sem geta rúmað um 900 starfsmenn á dýrustu lóð landsins færir bankann nær þessu markmiði Bankasýslunnar en aðrir valkostir, er nokkuð sem formaður bankaráðs þarf að rökstyðja, ef ekki nú, þá á næsta aðalfundi. Vonandi fá hluthafar betri skýringar þá en fengust á síðasta aðalfundi varðandi söluna á Borgun!

Svona á banki ekki að vera og þetta er ekki banki allra landsmanna, þetta er banki í 101 fyrir 101 rekinn af 101.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur