Miðvikudagur 15.07.2015 - 07:16 - Lokað fyrir ummæli

Hinn gríski lánasjóður

Til er sjóður sem kallar sig lánasjóð. Þessi sjóður lánar út fé sem hann fær aldrei tilbaka og því meira sem hann lánar því minni verða endurheimturnar. Nei þetta er ekki sjóður á vegum ESB og Þjóðverja sem lánar til Grikklands. Þessi sjóður er alíslenskur og nefnist LÍN.

Það er réttara að kalla LÍN styrktarsjóð sem stundar lánafyrirgreiðslu sem hliðarstarfsemi. Meirihluti þess fjár sem sjóðurinn greiðir út kemur aldrei tilbaka, þetta er fjárhæð sem nemur yfir 100 ma kr sem er umtalsvert hærri en Leiðréttingin fræga. Þetta er því ekki nein smáupphæð og um 40 einstaklingar fá 1% af þessari upphæð til sín eða um 1 ma kr.

Í nýrri skýrslu LÍN og í viðtölum við menntamálaráðherra koma fram ýmsar skýringar á þessari vinsælu íslensku leið að kalla styrki lán. Menn fara seint í dýrt nám og eru lengi að klára. En það er ekki öll sagan. Stór þáttur í slæmum endurheimtum er hin aggressíva láglaunastefna sem rekin er á Íslandi í garð háskólamenntaðra stétta í skjóli frumstæðra og einhæfra atvinnugreina. Að veita stærstu námslánin í mesta láglaunalandi Norðurlandanna gengur aldrei upp. Þá setur svona kerfi slæmt fordæmi til ungu kynslóðarinnar. Menn læra að það þarf ekki alltaf að borga lán tilbaka og því meira sem menn fá lánað því minna þarf að borga. Er furða að aðrar séttir vilji hið sama?

Það þarf að taka myndarlega til í LÍN og þó fyrr hefði verið. Bandarískar rannsóknir sýna að stúdentar þar í landi sem taka námslán sem eru hærri en $35,000 eru mun líklegri en aðrir til að lenda í vandræðum með sín námslán. Þess vegna er stúdentum ráðlagt að halda námslánum innan þessara marka. Nú eru tækifærin til að fá vel borguð störf eftir nám mun fleiri í Bandaríkjunum en á Íslandi og því þarf að þetta hámarka að vera lægra á Íslandi, líklega á bilinu 3 til 3.5 m kr. Mismunin þurfa námsmenn að brúa með styrkjum og vinnu. Það er engum gerður greiði með lánveitingum þar sem vitað er að endurgreiðslur eru ómögulegar. Betra er að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og skipta greiðslum LÍN upp í styrki og lán.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur