Laugardagur 18.07.2015 - 12:43 - Lokað fyrir ummæli

Að bjarga Landsspítalanum

Staða Landsspítalans er ekki viðunandi. Það þarf að leysa það vandamál með nýrri nálgun. Fyrsta flokks sjúkrahús verður aldrei rekið á sómasamlegan hátt af stjórnmálamönnum og allra síst dómstólum, enda er það ekki þeirra sérfræðisvið. Menn verða að átta sig á að á sjúkrahúsrekstur á nýrri öld verður ekki byggður á rómantískri hugmyndafræði um yfirburði ríkisrekstrar frá síðustu öld.

Ein skilvirkasta aðgerðin til að færa rekstur Landsspítalans í fyrsta flokk er að gera hann að sjálfseignarstofnun með eigin efnahagsreikning og sjálfstæða stjórn. Þar með færist rekstur spítalans af fjárlögum og úr höndum stjórnmálamanna yfir á herðar fagstjórnar sem ber ábyrgð á skipulagi og mönnun spítalans. Með eigin efnahagsreikning getur spítalinn fjármagnað sig sjálfur og þar með tryggt að tækjabúnaður og húsnæði séu viðunandi. Þá mun sjálfstæður spítali veita þjónustu á markaðsverði og greiða starfsfólki markaðslaun. Með þessari aðgerð er fjármagnsvandanum velt af spítalanum yfir á sjúkratryggingarhlutann, en af tvennu illu er betra að eiga við vandann þar en að fórna gæðum spítalaþjónustunnar.

Vanda sjúkratrygginga má leysa á margan hátt, en þegar þáttur sjúklinga er kominn nálægt 20% verður ekki hjá því komist að bjóða fólki upp á auka prívattryggingar eins og þekkist í nágrannalöndunum. Það er skömminni skárra að sjúklingar geti tryggt sig fyrir áföllum en að þurfa að borga sinn hlut úr eigin vasa eins og í dag. Viðbótar prívattryggingar munu einnig geta veitt sjúklingum aðgang að meðferðum og lyfjum sem ríkiskerfið býður ekki upp á eða skammtar í dag.

Þá þarf nýja nálgun á fjármögnun spítalans. Eigið fé ætti að vera blanda af framlagi hins opinbera og svo stofnfé frá almenningi og lífeyrisjóðum. Nýtt sjúkrahús má svo fjármagna að hluta til eins og hringvegurinn var fjármagnaður með happdrættisskuldabréfum og láta hluta vaxtagjalda renna í tækjakaupasjóð. Það eru nær ótakmarkaðir möguleikar á að leysa vandan Landsspítalans bara ef menn koma sér upp úr skotgröfum síðustu aldar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur