Miðvikudagur 22.07.2015 - 14:22 - Lokað fyrir ummæli

Opinber rekstur í vanda

Það er ekki einkarekstur sem hefur rústað Landsspítalanum. Það hefur opinber rekstur gert, þar sem engu má breyta.

Það mun ekki bjarga Landsspítalanum að halda dauðahaldi í úrelt rekstrarform. Rekstur Landsspítalans fer þá sömu leið og krónan, verður annars flokks og þarf að búa við alls konar varúðarreglur og skammtanir.

Það þýðir ekki að horfa fram hjá þeirri staðreynd að heilbrigðisþjónusta er einn stærsti markaður heims. Læknar eru miskunnarlaust flokkaðir eftir gæðum og þjónusta þeirra verðlögð eftir árangri og kunnáttu. Sjúkrahús út um allan heim keppast við að laða besta fólkið til sín og þar er allur heimurinn eitt markaðssvæði. Þeir sem ekki geta borgað fyrir fyrsta flokks gæði fá annan eða þriðja flokk.

Vandamálið á Íslandi er að ríkið hefur ekki lengur efni á að bjóða öllum upp á alþjóðlega fyrsta flokks þjónustu. Þá stendur valið á milli þess að veita öllum annars flokks þjónustu og senda fyrsta flokk úr landi eða að reyna að varðveita fyrsta flokks þjónustu innanlands en undir öðru rekstrarformi. Nær öll Evrópulönd búa við blandað heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar hafa val. Þetta snýst ekki um að breyta íslensku heilbrigðiskerfi í bandarískt heldur að aðlaga það að heilbrigðiskerfi annarra Evrópulanda eins og t.d. Frakklandi. Ekki er mér kunnugt um að franskir sósíalistar krefjist þess að franskir spítalar séu reknir af franska ríkinu, enda eru flestir Frakkar lítt hrifnir af breska kerfinu, sem er fyrirmynd þess íslenska.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur