Föstudagur 31.07.2015 - 14:18 - Lokað fyrir ummæli

Vandamál Landsbankans

Umræða um “vandamál” Landsbankans er að verða fastur liður hjá fjölmiðlum. Fyrst var það Borgun, svo nýjar aðalstöðvar og nú spyr einn hluthafinn hver er stefna bankans? Er von að hluthafar og viðskiptavinir séu ruglaðir. Þetta er auðvitað allt bankanum sjálfum að kenna og öll spjót beinast að stjórn bankans enda er sala eigna, nýjar aðalstöðvar og stefna bankans á hennar ábyrgð.

En eins og í góðri sakamálasögu skýrist myndin eftir því sem tíminn líður. Flest bendir til að vandamál Landsbankans stafi af veikum stjórnarháttum og frasakenndri stefnumótun.

Í eigendasamningi Lanndsbankans við Bankasýsluna sem birt er á vefsíðu hins síðarnefnda segir:

Landsbankinn skal miðla framtíðarsýn sinni, stefnumörkun og árangri með skýrum hætti á heimasíðu sinni.

Á heimasíðu Landsbankans er stefna bankans nefnd “Landsbankinn þinn”. “Framtíðarsýn bankans er að vera til fyrirmyndar”, “svona á banki að vera” og “við skiptum ekki um nafn heldur hugafar”. Þetta er hvorki stefna né framtíðarsýn heldur innihaldslausir frasar. Er furða að hluthafar klóri sér í hausnum þegar bankinn svo opinberlega skilgreinir sig með nýjum frasa sem “miðbæjarfyrirtæki” Hvernig samrýmist það fyrri frösum? Telur stjórn bankans að þetta flokkist undir að miðla upplýsingum á skýran hátt? Og telur Bankasýslan að þetta uppfylli fyrrnefndan samning?

Hinn veikleiki bankans eru ófullkomin umgjörð stjórnarhátta. Allir stjórnarmenn bankans eru skipaðir (eða öllu heldur kosnir sovéskri kosningu) af einum aðila. Það eru allir í sama liðinu sem aftur ýtir undir hóphugsun. Þá hefur ríkið sett takmarkanir á störf stjórnar bankans með því að setja sérreglur um kaup og kjör forstjóra sem ekki gilda hjá samkeppnisaðilum. Þar með getur stjórn Landsbankans ekki ráðið til sín bankastjóra á samkeppnisgrundvelli sem veikir stöðu stjórnarinnar gagnvart framkvæmdastjórninni. Það er mannlegt eðli að þegar ekki er hægt að veita einum aðila samkeppnishæfa þóknun fyrir unnin störf er oft reynt að bæta það með öðrum hætti. Menn geta þá gengið á lagið og farið að heimta hitt og þetta sem ekki er endilega alltaf byggt á skýrum viðskiptalegum grunni. Nú skal ekki sagt að þetta eigi við um Landsbankann en ríkið hefur skapa sér sjálft ákveðinn vanda með því að setja sérreglur um störf stjórna fyrirtækja í eigu ríkisins.

Vandamál Landsbankans verða seint leyst fyrr en bankinn fær að starfa á eðlilegum samkeppnisgrunni og honum er sett faglegri umgjörð stjórnarhátta. Þá verður bankinn að marka sér skýra stefnu og framtíðarsýn sem stenst lágmarkakröfur fagaðila.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur