Laugardagur 08.08.2015 - 06:04 - Lokað fyrir ummæli

Lengi getur vont versnað

Fyrirmyndarbankinn bakkar nú með áform um nýjar aðalstöðvar og gerir það fyrr en í Borgunarmálinu þegar hann bakkaði of seint. “Svona á banki að vera” segja menn þar á bæ!

Bankastjórinn kemur fram og segir við RÚV að nægur tími sé til stefnu að taka upplýstar ákvarðanir.  Hvað hafa menn þá verið að gera síðustu 2 árin?

Það sem er athyglisvert í þessu máli eru kaup bankans á lóðinni við Hörpu fyrir rúmum 18 mánuðum síðan. Banki sem er í húsnæðisvanda fer nú varla að kaupa lóð á dýrasta stað á um 20% “yfirverði” nema hann ætli að byggja á henni. Þetta vekur upp spurningar á hvaða forsendum lóðin var keypt. Hvaða upplýsingar hafði bankaráð fyrir framan sig þegar sú ákvörðun var tekin? Hvaða aðferðafræði var notuð við lóðaval, verðmat og tilboðsgerð? Naut bankaráð aðstoðar óháðra ráðgjafa í þessu verkefni? Hvaða upplýsinga á að afla nú sem ekki lágu fyrir þegar lóðin var keypt? Hvers vegna líða svo 18 mánuðir og 2 aðalfundir frá lóðakaupum þar til tllkynnt eru um byggingaráform? Er ekki eðlilegt að draga þá ályktun að 18 mánuðir hafi verið nægut tími til að ganga faglega frá þessu máli? Bankasýslan hafði tvo aðalfundi til að kynna sjónarmið ríkisins og afla nauðsynlegra gagna. Er svona seinagangur boðlegur á sama tíma og bankinn segist vera leita allra leiða til hagræðingar? Halda menn að svona vinnubrögð hámarki verðmæti eignarhluta ríkisins í bankanum?

Ljóst er að það sem átti að vera lausn er orðið að vanda. Bankastjóri, bankaráð og Bankasýslan eru öll hluti af þessum vanda. Hver leysir hann? Hver ætlar að taka að sér hlutverk litlu gulu hænunnar og redda málum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur