Fimmtudagur 06.08.2015 - 13:58 - Lokað fyrir ummæli

Tvöfalt kerfi eru mannréttindi

Tvöfalt kerfi eru sjálfsögð mannréttindi. Þetta varð niðurstaðan í frægi máli tveggja kvenna í Bretlandi fyrir nokkrum árum. Heilbrigðisyfirvöld þar vildu ekki láta þær fá ný krabbameinslyf sem læknar þeirra óskuðu eftir. Þær ætluðu þá að borga lyfin sjálfar og fá það á prívatsjúkrahúsi en þá sögðu heilbrigðisyfirvöld að það væri ekki hægt. Sjúklingar yrðu að vera í öðru hvoru kerfinu, hinu opinbera eða prívat kerfinu, það væri ekki hægt að blanda þessum kerfum saman, í því fælis mismunun. Lögmenn kvennanna bentu þá á að það væri brot á mannréttindum að neita sjúklingum um að nálgast nauðsynleg lyf sem læknar ráðlögðu og buðust til að fara með málið fyrir mannréttindadómstól Evrópu. En til þess kom ekki þar sem bresk stjórnvöld sáu að sér og breyttu lögunum þannig að sjúklingar eiga rétt á að blanda kerfunum saman. Réttur sjúklingsins um val á meðferð var settur ofar kerfinu.

Þetta mál er hliðstætt málum lifrabólgusjúklinga á Íslandi nú. Íslensk yfirvöld eru á hálum siðferðislegum ís að neita sjúklingum um nauðsynleg lyf sem eru fáanleg á landinu á grundvelli þess hver borgar lyfin. Allt tal, um að tvöfalt kerfi sé varasamt, er villandi. Fyrir hrun áttu Íslendingar rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ var á, en þessi réttur hvarf í hruninu. Um leið var mismunun inleidd í heilbrigðisþjónustu landsmanna þar sem þeir efnameiri þurfa ekki á löggjöf að halda til að nálgast fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, þeir einfaldlega borga fyrir hana á prívatspítölum erlendis.

Og hvað ætla yfirvöld að gera við sjúklinga sem nálgast sjúkrahúslyf erlendis og koma með þau til landsins? Varla geta læknar neitað að meðhöndla þessa sjúklinga? Íslenskir sjúklingar hafa fengið sjúkrahúslyf, sem þeim hefur verið neita um á Íslandi, afgreidd í apótekum erlendis undir svokallaðri mannúðarafgreiðslu. Er nú ekki betra að finna leið til þess að lofa sjúklingum að nálgast nauðsynleg lyf á Íslandi en að þurfa að reiða sig á mannúðarlöggjöf Evrópuríkja sem afgreiða nauðsynleg lyf til sjúklinga sem koma að lokuðum dyrum í sínu heimalandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur