Þriðjudagur 04.08.2015 - 07:53 - Lokað fyrir ummæli

Hallarbyggingar Íslendinga

Íslendingar hafa mikla trú á hallarbyggingum. Kannski er það vegna þess að það var ekki fyrr en á 20. öldinni að Íslendingar höfðu efni á að byggja hallir, síðastir Evrópuþjóða.

Íslenskar hallarbyggingar eru að stærstum hluta byggðar yfir ósjálfbæran og óhagkvæman rekstur. Dæmin eru mýmörg sérstaklega hjá hinu opinbera. RÚV og OR hallirnar eru dæmigerðar fyrir mistök í rekstri fyrirtækja í opinberri eigu. Þær hallir urðu á endanum táknrænar fyrir rekstur sem ekkert vit var í. En allt er þegar þrennt er. Nú á að endurtaka þessi mistök og ekki læra af reynslunni. Nú vill nýjasta ríkisfyrirtækið byggja sína höll, og af hverju ekki? Rök þess fyrirtækis eru hlægileg og rekstrarumhverfið líkt og hjá OR og RÚV forðum daga – arðsemi af reglulegum rekstri nær ekki upp í fjármagnskostnað ríkisins.

Í staðinn fyrir að byrja á að bæta reksturinn og ná arðseminni upp í viðunandi horf og síðan byggja eða kaupa hagkvæmt húsnæði yfir þann rekstur er byrjað á að byggja yfir rekstur sem stjórnarformaðurinn segir að sé ekki viðunandi. Svona rekur enginn fyrirtæki sem hefur staðið í rekstri sjálfur. Það er með ólíkindum að það skuli ekki vera hægt að innleiða þessa einföldu rekstralexíu í opinberan rekstur á Íslandi.

Hvers vegna hverfur allt rekstrarvit þegar kemur að byggingu húsnæðis hjá hinu opinbera? Af hverju sætta menn sig við að öllu sé velt yfir á viðskiptavini og skattgreiðendur? Eins og á miðöldum í Evrópu er það almenningur sem borgar hallarbyggingar Íslands á 21. öldinni. Og kannski þarf að fara aftur til miðalda til að skilja íslenskar hallarbyggingar. Eru þær byggðar á hinu fræga mottói Thomas Bohier sem byggði Chenonceau höllina í Frakklandi: ”S’il vient a point me souviendrai”?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur