Föstudagur 04.09.2015 - 08:49 - Lokað fyrir ummæli

Hálfdrættingur seldur

Nýlega tilkynnti fjármálaráðherra að selja ætti 30% í Landsbankanum. Stóra spurningin er þá: mun ríkið fá tilbaka þá peninga sem lagðir voru inn í bankann í hruninu? Það verður að koma í ljós og fer eftir því hverjir verða kaupendurnir og á hvaða forsendnum þeir kaupa?

Eitt það mikilvægasta við sölu á bönkum í dag er gæði tekna þeirra. Því meiri gæði því hærra verð. Fagfjárfestar borga ekki hátt verð fyrir óreglulega liði líkt og fyrir hrun. Mikilvægasti mælikvarðinn á gæði tekna er arðsemi af reglulegum rekstri. Ef þessi liður er ekki í lagi verður að gefa fjárfestum hressilegan afslátt af verðinu. Því lægri sem arðsemin er, því meiri afslátt heimta fjárfestar, alla vega þeir sem taka ákvarðanir á viðskiptalegum forsendum.

Vandamál ríkisins er að Landsbankinn er hálfdrættingur á við banka kröfuhafa þegar kemur að arðsemi af reglulegum rekstri. Á síðasta aðalfundi viðurkenndi stjórnarformaður ríkisbankans að arðsemi án óreglulegra liða væri óviðunandi og aðeins 5-6% eða undir ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Lofaði hann að bankinn myndi ná þessari arðsemi í 10% á 4 árum. Við fyrsta tækifæri tilkynntu bankar kröfuhafa að þeirra arðsemi af reglulegum rekstri væri þegar yfir 10% og þar með er ríkisbankinn hálfdrættingur á við þá og a.m.k 4 árum á eftir. Þessi óheillastaða mun hafa áhrif á það verð sem fjármálaráðuneytið getur vænst við sölu á ríkisbankanum og það verður lægra en hefði bankinn og eigendur hans tekið á þessum málum af festu fyrir 4 árum.

Síðan er það athyglisvert, að við síðasta hálfsársuppgjör er Landsbankinn eini bankinn sem ekki tilkynnti arðsemi af reglulegum rekstri og hvernig bankanum miði að þessu mikilvæga markmiði. Hvers vegna fá hluthafar ríkisbankans ekki sömu upplýsingar og kröfuhafar? Vonandi mun ný stjórn Bankasýslunnar kippa þessu í liðinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur