Fimmtudagur 10.09.2015 - 07:52 - Lokað fyrir ummæli

Kínverjar herða gjaldeyrishöftin

Samkvæmt frétt í Financial Times er talið að kínverski seðlabankinn hafi eytt um 200 ma dollurum af gjaldeyrisforða sínum til að tryggja stöðugleika gjaldmiðilsins, renminbi, á undanförnum vikum. Þetta er orðið of dýrt, svo kínverski seðlabankinn hefur hert gjaldeyrishöftin með alls konar nýjum “varúðarreglum” til að tryggja stöðugleika á “ódýrari“ hátt.

Þessi kínverska saga er athyglisverð. Hingað til hafa Kínverjar ekki þurft að hafa mikið fyrir því að tryggja stöðugleika, stöðugt innstreymi af erlendum gjaldeyri hefur séð til þess. En um leið og flæðið fer í hina áttina koma upp vandamál og kostnaðurinn eykst.

Spurningin sem íslenskir fjárfestar ættu að spyrja sig er: hver er sambærileg tala, við 200 ma dollara, hjá íslenska seðlabankanum? Hvenær kemur að sársaukamörkum þegar flæði gjaldeyris fer í hina áttina? Í dag er þetta ekki vandamál á Íslandi alveg eins og það var heldur ekki hjá Kínverjum í um 20 ár, en allt tekur enda.

Reynslan sýnir að þar sem gjaldeyrishöft hafa einu sinni verið notuð er nær ómögulegt að losna alveg við þau. Það er hægt að gefa þeim “frí” um stundarsakir en þau koma alltaf til baka, kannski ekki í sama búningi en samt koma þau. Þetta ættu menn að hafa í huga þegar þeir eru að fjárfesta í íslenskum eignum. Menn þurfa að vera snarir í snúningum, því í svona kerfi gildir “fyrstur kemur, fyrstur fær”.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur