Laugardagur 17.10.2015 - 09:31 - Lokað fyrir ummæli

„EES lite“

The Economist er með vandaða úttekt á hugsanlegri úrsög Breta úr ESB – Brexit – eins og það er kallað. Blaðið styður aðild Breta að ESB, en viðurkennir að frasarnir um aukið sjálfstæði og fullveldi séu lokkandi en þeir byggja frekar á óskhyggju en raunsæi.

Blaðið fer vandlega yfir þá valmöguleika sem Bretar hafa yfirgefi þeir ESB. Einn þeirra er að sækja um aðild að EES sem sé klúbbur “eins smáríkis og tveggja tittlinga” eins og segir í lauslegri þýðingu. Og EES fær ekki háa einkunn. Sá klúbbur er dýr og ólýðræðislegur. Bretar myndu missa öll völd en þurfa að beygja sig undir Brussel og borga 90% af því sem þeir borga í dag. Ansi léleg skipti að mati blaðsins. Þá er vitnað í norska skýrslu um EES og sagt að Norðmenn séu hundóánægðir með EES. Sérstaklega er tekið fram að Noregur geti lent í verri stöðu með fiskútflutning til ESB landanna en Kanada og USA þegar TTIP samningurinn kemst á.

Þá fer blaðið yfir þá hugmynd Evrópuandstæðinga að Bretar geti fengið eins konar “EES lite” samning við ESB, þar sem Bretar stjórni því sem þeir vilja og geti valið bestu bitana úr ESB samstarfinu. Þessi leið er talin óraunhæf enda var EES fyrst og fremst hugsuð sem biðstofa fyrir ríki sem væntanleg myndu sækja um aðild einn daginn, en ekki endastöð fyrir ríki sem segja sig úr sambandinu. Niðurstaða The Economist er að það sé kalt fyrir utan ESB.

Það er nokkuð ljóst að það er lítil framtíð í EES. Þetta er barn síns tíma og passar ekki inn í nútímann. Þá hangir EES á velvilja og buddu Norðmanna og það er ekki víst að þeir séu sérstaklega spenntir fyrir því að halda þessum dýra og ólýðræðislega klúbbi gangandi nú þegar sér fyrir endann á olíuævintýri þeirra. Hver verður þá utanríkisstefna Íslands? Öskupokastefnan – „við höngum alltaf aftan í Norðmönnum” er nú aum lausn og harla lítil fullveldisreisn yfir þeirri leið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur