Föstudagur 16.10.2015 - 07:36 - Lokað fyrir ummæli

Einokunin lifir

Íslendingar börðust í aldir við að afnema danska einokunarverslun en innleiddu svo sjálfir enn víðtækari einokun þegar þeir fengu sjálfstæði.

Einkenni einokunarverslunar er ofsagróði í höndum fárra og sterk eiginhagsmunagæsla í krafti þess fjármagns. Þá er innlend einokunarverslun mun lúmskari en sú erlenda en engu hættuminni.

Hér er verið að tala um einokunarverslun með fjármagn. Íslenskur almenningur borgar helmingi hærra verð fyrir fjármagn en Danir. Þá er fjármálaþjónusta hér mjög frumstæð og óskilvirk, enda er svokölluð samkeppni innan einokunarkerfis aðeins að nafninu til. Hinum dönsku einokunarkaupmönnum hefur verið skipt út fyrir íslenska bankastjóra sem lifa góðu lífi og hafa náð vopnum sínum þrátt fyrir að hafa keyrt aðeins út af fyrir 7 árum. Þannig virkar einokunin, hún hugsar um sína og réttir allt við á undraskömmum tíma.

En þessi einokun er helsti dragbítur á framfarir. Hún heldur aftur af velferð og kaupmætti. Ísland er gjöfult land og miklar framfarir hafa átt sér stað á síðustu öld en það er ekki þessu einokunarkerfi að þakka. Án þess væri Ísland líkara Noregi. Kaup almennings væri hærra og velferðarkerfið betra.

Það sorglega er að forystusauðum einokunarinnar hefur tekist að telja mönnum trú um að vandamál Íslands liggi alls staðar annars staðar en í þessu kerfi og að það sé beinlínis óskabarn þjóðarinnar. Nú eru menn uppteknir við að aflétta höftum á þessu kerfi sem mun gera það óstöðugra en auka gróðamöguleika hin fáu á kostnað hinna mörgu.

En vonandi mun einhvern tíma rísa upplýst kynslóð Íslendinga sem hefur þor og kjark til að aflétta þessari einokun. En það verður varla á þessari öld.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur