Þriðjudagur 20.10.2015 - 09:31 - Lokað fyrir ummæli

Borgun fær Íslandsbanka

Það er klókt af kröfuhöfum að dangla Íslandsbanka framan í ríkisstjórnina.  Það er gulrót sem stjórnmálamenn geta ekki staðist.  Nú munu samningar renna í gegn enda þarf að hafa hraðar hendur við að koma Íslandsbanka í fang vildarvina, áður en kjörtímabilið rennur út.  Hver veit hvað tekur við þegar Píratar komast til valda?

Fáir standa betur að vígi til komast yfir Íslandsbanka en Borgunarmenn nema kannski Kaupfélag Skagfirðinga.  Þetta verður spennandi keppni þar sem sigurvegarinn verður sá sem er frekastur og með bestu samböndin.  Reynsla og þekking af nútíma bankarekstri skiptir litlu máli enda er hún varla til á Íslandi.  Og til að vildarvinirnir fái nú allt á sem hagstæðasta verðinu mun ríkið efna til bankaútsölu aldarinnar. Allt verður selt á sama tíma sem auðveldar mönnum að “útskýra” hvers vegna nauðsynlegt verður að nota lokað söluferli.

Hins vegar eru þetta slæmar fréttir fyrir viðskiptavini bankanna.  Þeir munu borga brúsann í formi ofurvaxta, verðtryggingar og hárra gjalda, enda er verðtryggingin gullkálfur eigenda íslensku bankanna og sjálfstýring þeirra sem eiga að stjórna þeim.  Allt tal um að afnema verðtrygginguna mun nú detta niður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur