Fimmtudagur 22.10.2015 - 08:30 - Lokað fyrir ummæli

2 bankar betri en 3

Ef ríkið tekur við Íslandsbanka verða um 70% af bankaeignum á Íslandi í eigu ríkisins. Í þessu felast bæði tækifæri og ógnir.

Það fyrsta sem gerist þegar einn og sami aðilinn er kominn með 70% af framboði eigna og gefur út yfirlýsingu um að hann verði að selja, lækkar verðið. Það bætir síðan ekki stöðuna að eftirspurnarhliðin er þröng og þekkt, enda eru litlar líkur á að erlendir aðilar hafi áhuga á íslenskum bönkum sem eru bundnir krónunni og eiga ekki vaxtamöguleika fyrir utan Ísland, ólíkt því sem var fyrir síðustu einkavæðingu. Í svona umhverfi eru það lögmál brunaútsölunnar sem ráða. Og það hentar vissulega þeim sem vilja kaupa. Það er því ekki viturlegt að selja 2 ríkisbanka á sama tíma og í óbreyttu ástandi.

Ef ríkið vill hins vegar hámarka söluverðið og byggja tryggari stoðir undir betri og heilbrigðari bankarekstur í framtíðinni þarf að nota þetta einstaka tækifæri til að endurskipuleggja, sameina og hagræða í rekstri og fjármögnun bankanna. Svona tækifæri kemur ekki aftur á þessari öld. En slíkt mun ekki takast nema menn séu tilbúnir í erfiðar ákvarðanir, sem ekki verða vinsælar hjá hinum ýmsu hagsmunahópum. Líklega munu um 400-500 bankastörf tapast og önnur færast til, ný glerhöll við Hörpu sparast og leggja má grunn að nýjum 21. aldar sparisjóði sem vinnur á samfélagslegum nótum og í samkeppni við 2 stórbanka.

Það verður því mikill þrýstingur alls staðar frá að halda stóru bönkunum 3 gangandi óbreyttum. Íslendingar eru í eðli sínu íhaldssamir og hræðast breytingar sem ekki koma með tölvupósti frá Brussel. Samkeppnisrökin verða notuð óspart, þó færa megi sterk rök fyrir því að fjármálakerfi með 2 stóra banka sé til lengri tíma betra fyrir samkeppnina og auki líkur á að smærri stofnanir, eins og t.d. sparisjóðir fáist þrifist. Það þarf nú stundum að grisja skóginn til að leyfa nýjum trjám að festa rætur.

Það verður spennandi að fylgjast með hvaða hópar verða ofaná og fá að ráða ferðinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur