Sunnudagur 25.10.2015 - 08:44 - Lokað fyrir ummæli

Ákall um samfélagsbanka

Krafan um samfélagsbanka er mjög skiljanleg. Samfélagsbanki er ófullkomin lausn og verður mun dýrari en margir halda. En “einkareknir” bankar sem setja vildarvini ofar öllu er enn verri lausn.

Fátt hefur dregið meir úr trausti á bankakerfinu á síðustu misserum en klúðursleg eignasala til vildarvina. Þetta er ekki merki um heilbrigt fjármálakerfi. Það sem er illskiljanlegt er hvers vegna er Ísland í þessari stöðu eftir allt sem á undan er gengið? Hér þarf að horfa til þeirra aðila sem bera ábyrgð á ástandinu en það eru fyrst og fremst stjórnir bankanna, svo FME og löggjafinn.

Eitt fyrsta verk eftir hrun var að endurskoða lög um fjármálafyrirtæki og hlutafélög. Skerpt var á kröfum og skyldum stjórnarmanna og fyrirtækjum bannað að vera með starfandi stjórnarformenn. En þetta virðist ekki hafa dugað. Í því ástandi sem ríkir á íslenskum fjármálamarkaði í dag er eftirlitshlutverk stjórna lang mikilvægast. Það hlutverk stendur og fellur yfirleitt með sambandi stjórnarformanns og forstjóra. Ef það er of náið er hættunni boðið heim. Þetta samband á ekki að vera vinasamband. Það á frekar að líkjast sambandi Soffíu frænku við ræningjana. Það þarf einfaldlega miklu meira “ja fussum svei” í íslenskar stjórnir.

FME sleppur heldur ekki vel frá þessum vanda fjármálakerfisins. Á vefsíðu þess segir:

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að standa vörð um traust og heilbrigði fjármálamarkaðarins.

Það er erfitt að sjá að FME sé að standa sig í þessu hlutverki. Krafan um samfélagsbanka segir okkur það. Þá varpa vandamál bankakerfisins nýju ljósi á skýrslur AGS, þar sem iðulega var bent á nauðsyn þess að efla FME.

Það er nokkuð ljóst að íslenskir bankar og ramminn sem þeir starfa innan er alls ekki tilbúinn fyrir einkavæðingu. Mikið endurbótastarf er nauðsynlegt áður en þeim áfanga er náð og líklega þarf að fá erlenda aðila, á við AGS, til að gera óháða útekt á þeirri vinnu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur