Mánudagur 07.12.2015 - 10:21 - Lokað fyrir ummæli

Pólitískur bankastjóri

Yfirboðarar ríkisbankastjórans mega vera ánægðir með sinn mann. Ísland er í blússandi góðæri þökk sé ríkisstjórninni, segir bankastjóri Landsbankans í nýlegu viðtali. Þá rómar hann Seðlabankann, sem sé að gera frábæra hluti.

Allt er þetta í klassískum íslenskum stíl. Ríkisforstjórar klappa hver öðrum á bakið og skjalla sína ráðherra og yfirmenn. Og svo er þetta kórónað með því að segja að allt sé í algjörlega nýrri umgjörð og að menn eigi bara að vera bjartsýnir. Getur þetta orðið framsóknarlegra?

Það er aldrei traustvekjandi þegar bankastjóri kemur í viðtal og nefnir engar tölur um vöxt eða arðsemi. Í bankarekstri þurfa menn að vera talnaglöggir. Þá er skrýtið að hampa hlutafélagsformi bankans en tala aldrei um hluthafa. Það er ekki hægt að slíta þetta í sundur. Ríkisbankastjórinn talar um að arðsemi bankans eigi að vera nóg til að bankinn geti viðhaldið sér – sé sjálfbær. En hvað þýðir það? Hvar koma hluthafar inn í þá formúlu?

Þá var athyglisvert að bankastjórinn virtist tilkynna afkomuviðvörum í viðtalinu. Hann sagði að arðsemi af bankarekstri yrði minni í framtíðinni. En eins og með stjórnmálamenn talaði hann óskýrt. Allir gera sér grein fyrir því að einskiptisliðir tengdir hruninu hverfa með tíð og tíma, en hvað með reglulegan rekstur bankans? Var bankastjórinn að tilkynna að það væru vandamál með þann rekstur í framtíðinni? Það væri ekki traustvekjandi korteri fyrir sölu, nema fyrir væntanlega kaupendur sem gætu túlkað þetta sem verðlækkun á verðmiða ríkisins?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur