Föstudagur 11.12.2015 - 08:17 - Lokað fyrir ummæli

„Leyfið börnunum að koma til mín“

Jólabarnið sagði: “Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því slíkra er Guðs ríki.”

Senn halda Íslendingar jól og minnast byltingarmannsins, Jesús, sem ekki skorti kjark til að standa upp í hárinu á þeirra tíma valdastétt. Við minnumst kenninga hans um mannúð og manngæsku.

Það er því ósköp skiljanlegt að þegar ríkissjórn landsins, sem lætur þjóðkirkjuna blessa sig á hverjum sunnudegi í öllum kirkjum landsins, ákveður korteri fyrir jól að kasta veiku barni úr landi í skjóli nætur, að hin kristna þjóð mótmæli. Ekki batnar málið þegar gjörningurinn er varinn með því að sækja í smiðju Pílatusar. Ráðherra þvær hendur sínar og segist ekki hafa getað gert annað. Lögfræðingastéttin ver ráðherrann, alveg eins og lögmenn forðum stóðu með Pílatusi, hann var jú bara að fara eftir lögum og skipunum síns tíma?

Jesús hefði mótmælt þessum brottflutningi á veiku barni kröftulega. Svona verknaður er ekki í samræmi við kenningar hans. Eða hvað? Hvar er fulltrúi Jesús á Íslandi? Hvers vegna þessi ærandi þögn frá þeirri stofnun? Er það vegna þess að kirkjan er ríkiskirkja og menn á þeim bæ eru orðnir hollari peningavaldinu? Ætlar biskup Íslands að standa með Pílatusi eða Jesús? Það fá menn vonandi að heyra um þessi jól.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur