Þriðjudagur 09.02.2016 - 20:11 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankakúltúrinn

“Við skiptum ekki um nafn heldur hugarfar”, auglýsti Landsbankinn eftir hrun. En það þarf meira til en auglýsingar til að skipta um hugarfar og Borgunarklúðrið bendir til að bankinn sé fastur í gamalli viðskiptamenningu. Blússandi hóphugsun virðist enn ríkjandi í bankanum þrátt fyrir að Rannsóknarskýrsla Alþingis sé orðin 5 ára, en þar er rækilega varað við einsleitum bankastjórnendum sem verða hóphugsun að bráð.

Þegar verið er að selja eignir til kaupenda sem hafa meiri þekkingu og reynslu en seljandinn þá eiga menn að hafa varann á og láta utanaðkomandi aðila sjá um söluna fyrir opnum tjöldum. Að nota lokað ferli og láta innanhúss aðila sjá um söluna er það versta sem hægt er að gera, því ef eitthvað fer úrskeiðis þá hámarkast bæði hinn fjárhagslegi og orðsporslegi skaði, eins og Landsbankamenn eru nú að upplifa.

Hvers vegna hringdu engar viðvörunarbjöllur í stjórn bankans? Eitt aðalverkefni sjórna eftirlitskyldra fjármálafyrirtækja eftir hrun er jú eftirlitsþátturinn. Félagssjórn ber að sannreyna forsendur og útreikninga framkvæmdastjórnar í málum sem ekki flokkast undir daglegan rekstur. Allir stjórnarmenn Landsbankans eiga að hafa lokið hæfisprófi hjá FME og eiga því að gera sér grein fyrir skyldum sínum. Þá hafa þeir aðgang að utanaðkomandi sérfræðingum sér til halds og trausts, ef bankinn fylgir leiðbeiningum Viðskiptaráðs um góða stjórnarhætti. Það er áhyggjuefni bæði fyrir eigendur bankans og FME hvers vegna stjórnin stoppaði ekki söluna í tíma?

Liklegast er að stjórn bankans hafi sogast inn í Landsbankakúltúrinn og ekki gætt að sér. Þetta er kúltúr sem ofmetur eigin hæfileika og kunnáttu og vanmetur áhættur og andstæðinga. Eitt stærsta verkefni nýrrar stjórnar, sem kjósa þarf á næsta aðalfundi, er að innleiða nýja viðskiptamenningu. Það verður ekki auðvelt verk en er nauðsynlegt til að tryggja framtíðarhag bankans. Án nýs kúltúrs verður erfitt, ef ekki ómögulegt, að innleiða nýja stefnu og koma reglulegum rekstri bankans í ásættanlegt horf. Borgunarklúðrið og eftirleikur þess hefur sent sterk skilaboð til markaðarins að nauðsynleg umbótarverkefni eru enn óunnið innan Landsbankans, og því er allt tal um sölu á eignarhlut ríkisins ótímabært eins og mál standa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur