Miðvikudagur 09.03.2016 - 23:49 - Lokað fyrir ummæli

Fjármálakerfi á brauðfótum

Það ætlar að verða mun erfiðara að byggja upp traust á íslenskum fjármálamarkaði en svartsýnustu menn áætluðu. Vart líður sá mánuður að ekki bætist í hinn sístækkandi sarp fjármálaklúðurs.

Nýjasta dæmið um arðgreiðslur tryggingafélaga kastar ljósi á alvarlegar brotalamir í kerfinu. Fjármálaráðherra gagnrýnir harðlega fjármálagjörning sem forstjóri FME leggur blessun sína yfir. Hér er forstjóri FME kominn í svipaða stöðu og bankastjóri Landsbankans og farinn að verja hið óverjanlega.

Það er skiljanlegt að menn spyrji hvort FME ráði við hlutverk sitt? Aðalmarkmið FME eins og það auglýsir á vefsíðu sinni er að: “standa vörð um traust og heilbrigði fjármálamarkaðarins”. Það er ekki nóg að fjármálagjörningar séu löglegir. Þeir þurfa að byggja á heilbrigðum viðskiptalegum grunni og þar liggur vandamálið sem FME og margir aðilar á íslenskum fjármálamarkaði virðast ekki skilja. Gamla hugarfarið “löglegt en siðlaust” virðist enn í fullu gildi og það jafnvel innan opinberra eftirlitsstofnanna? Stjórn FME þarf að taka af allan vafa í þessu máli og útskýra fyrir almenningi hvernig FME hyggst ná markmiði sínu og endurheimta traust sem hefur tapast.

Það er ljóst að áhyggjur AGS á sínum tíma, um veikleika í eftirlitisþætti fjármálamarkaðarins eru enn til staðar. Á meðan svo er, er ekkert vit í að selja eignarhluti ríkisins í bönkunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur