Laugardagur 30.04.2016 - 14:43 - Lokað fyrir ummæli

Hlutabréf falla

Hutabréf féllu hressilega í fyrir helgi. Hvers vegna? Vissulega hafði uppgjör Icelandair áhrif, en þar með er ekki öll sagan sögð. Hærri kostnaður vegna launahækkana er ekkert nýtt.

Það sem var nýtt var að fjámálaráðherra tilkynnti að ríkið ætlaði að selja um 60 ma kr af eignum, þar á meðal skráð bréf fyrir áramót. En það þarf ekki nema grunnskólaþekkingu í hagfræði til að skilja hvaða áhrif slík getur haft á markaðinn. Þegar menn auka framboð án þess að eftirspurn aukist á sama tíma, fellur verðið. Og með því að tímasetja söluna eins og gert var, líklega út frá pólitískum veruleika, er tryggt að verðfallið verður hámarkað. Þetta eru því góðar fréttir fyrir fjársterka aðila sem hafa aðgang að bankakerfinu og geta fjármagnað svona kaup með lánum þar sem bréfin eru sett að veði. Hér verður ríkið báðum megin við borðið, selur og fjármagnar. Allt á einum stað, eins og sagt er. Nú verður gaman að sjá hvernig ný bankaráð ríkisbankanna og FME höndla svona tækifæri! Er nýtt Borgunarklúður í uppsiglingu eða tekst nýju fólki að standa vörð um orðspor bankanna? Það á eftir að koma í ljós.

Hitt er víst að þegar ríkið selur eignir í tímaþröng er verið að bjóða upp á reyfarakaup – hámarks gróða með lágmarks áhættu. Það er engin furða að menn séu spenntir. Það sem stjórnmálamenn þurfa að svara er hvernig á að tryggja að almenningur fái að taka þátt í þessari sölu – og að hún takmarkist ekki við svokallaða “fagfjárfesta”.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur