Miðvikudagur 08.06.2016 - 09:35 - Lokað fyrir ummæli

LÍN frumvarpið skoðað

Það fyrsta sem maður tekur eftir í nýju frumvarpi um námslán er að ríkisstjórn sem ætlaði að afnema verðtryggingu og 40 ára lán, er komin heilan hring og setur 40 ára verðtryggð lán sem undirstöðu undir framtíðarskipan námslána. Hér er auðvitað ekki við menntamálaráðherra að sakast. Raunheimi íslensks peningamálakerfis verður ekki svo auðveldlega stjórnað með yfirlýsingum stjórnmálamanna.

Það sem er skynsamlegt við frumvarpið er að reynt er að aðskilja lán frá styrkjum. Gamla kerfið hvetur námsmenn til að taka mikil “lán” og fresta greiðslum eins lengi og kostur er til að fá hina “innbyggðu” styrki í kerfinu. Þessu þarf að breyta enda byggir gamla kerfið ekki á neinni skýrri stefnu. Og það virðist líka hafa gleymst að móta skýra og metnaðarfulla stefnu sem rammar inn nýtt kerfi. Í staðinn hefur nefnd manna farið í að “laga” gamla kerfið með hliðsjón af kerfum í nágrannalöndunum. Þetta er gott svo langt sem það nær, en menn mega ekki gleyma að lítið, einsleitið og tungumála-einangrað land hefur aðrar þarfir en milljónmanna samfélög. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að 300,000 manna þjóð getur aldrei rekið fjölda háskóla sem bjóða upp á þá þekkingu og reynslu sem bestu háskólar í heimi hafa upp á að bjóða.

Einn stærsti gallinn við LÍN frumvarpið er að það virðist gengið út frá því að Íslendingar þurfi ekki lengur að sækja sér menntun erlendis. Kerfið er hannað að þörfum innlendra háskóla og sveigjanleikinn í gamla kerfinu er horfinn. Ef efnilegur stúdent fær inngöngu í einn af bestu háskólum Bandaríkjanna er eins gott að hann komi af efnuðum foreldrum sem geta fjármagnað skólagjöldin. Að veita öllum námsmönnum sömu styrkupphæð án tillits til aðstæðna eða hæfileika er of einföld lausn og sýnir best að stefnumótunina vantar. Betur má ef duga skal.

Annað vandamál við nýja kerfið er tengt hávaxtamynt landsins. 3% verðtryggðir vextir eru líklega með því hæsta í hinum vestræna heimi, þegar kemur að námslánum, en þegar þetta er skoðað út frá íslenskum fjármögnunarkostnaði, er vaxtaprósentan mjög hófsöm. Möguleikar háskólamenntaðra einstaklinga til að mæta þessum háa og ótekjutengda kostnaði eru hins vegar mun verri en í nágrannalöndunum þar sem launaávinningur við menntun er hærri. Hvernig menn ætlað síðan að eignast húsnæði með 10-15 m kr. ótekjutengd, 40 ára, 3% verðtryggð námslán á bakinu verður hægara sagt en gert. Kannski ættu ráðamenn að íhuga að bjóða upp á námslán í erlendri mynt fyrir þá nemendur sem ekki ætla sér að starfa í krónuhagkerfinu?

Kostnaður við að sækja sér háskólamenntun mun í mörgum tilfellum hækka með þessu frumvarpi, en það er vegna þess að dregið er úr vaxtaniðurgreiðslum og ógagnsæjum styrkveitingum. Kerfið er fært nær raunheimi íslensku krónunnar. Vandamálið er alltaf hið sama, það er illt að þurfa að taka lán í hávaxtaörmynt sem er óbeint stjórnað af erlendum spekúlöntum og innlendum hagsmunahópum. Ef menn vilja styrkja námsmenn er best að gera það með beinum en markvissum styrkjum, ekki vaxtaniðurgreiðslum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur