Sunnudagur 26.06.2016 - 07:11 - Lokað fyrir ummæli

Brexit og EES

Það er kostulegt að lesa hvað margir íslenskir ráðamenn halda að EES sé lausn Breta nú þegar þeir eru á leið út úr ESB. En EES er engin lausn, þvert á móti. EES gefur Bretum ekki vald yfir eigin landamærum eða frelsar þá úr klóm skriffinna í Brussel. Að fara úr ESB og yfir í EES er að fara úr öskunni í eldinn. Þetta skilja Norðmenn, enda vöruðu þeir Breta við EES leiðinni fyrir kosningar.

Greiningaraðilar í Bretlandi hafa einnig bent á að EES henti ekki stórum lýðræðisþjóðum en geti verið lausn fyrir smáríki sem séu tilbúin að samþykkja þá sjálfstæðisskerðingu sem fylgir því að taka upp regluverk ESB án þess að hafa þar atkvæðisrétt. Þá sagði fjármálaráðherra Þýskalands í viðtali við Der Spiegel í byrjun júní að EES stæði Bretum ekki til boða ef þeir yfirgæfu ESB. Sú yfirlýsing er í sjálfu sér athyglisverð og sýnir að ESB lítur ekki á EES sem framtíðarmódel fyrir ríki utan ESB. Í dag er talið líklegar að Bretum verði boðinn samningur sem byggir á fríverslunarsamningi ESB við Kanada. Eitt er víst, það er lítil stemning fyrir því innan ESB að leyfa þjóðum að velja bestu bitana út ESB samstarfinu. Inn er inn og út er út, eins og menn segja í Þýskalandi.

Evrópuþjóðir sem vilja hafa áhrif innan eigin álfu og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum gera það best sem hluti af þeirri heild sem ESB er, jafn ófullkomin og hún er. Þetta skilja Skotar og Norður-Írar sem og unga kynslóðin í Englandi og Wales. Það er hvíta gamla settið sem er til vandræða.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur